Friday, October 29, 2004

Þá er komið að því en nú er rétt rúmur sólarhringur þar til maður leggur af stað til Brussel. Búinn að fá dagskrána í hendurnar og er hún þétt skipuð en þó með góðu fríi inn á milli sem er nauðsynlegt til að kanna nætur- og skemmtanalíf Brussel.
Nú er ég að vinna hörðum höndum í að komast erlendis eftir áramót. Nenni ómögulega að hanga á skerinu, ekki það að þetta sé svo slæmt hérna en það er einhver þörf í mér að skoða heiminn. Hef tekið eftir því hjá mér að ég þoli mjög illa stöðnun eða ílengjast í sömu hlutunum. Það skýrir eflaust þá þær staðreyndir að ég hef lengst verið í sama starfi eitt ár, búið átta eða níu stöðum síðustu átta ár, aldrei verið í langtímasamböndum o.s.frv.. Held að ég þrífist best í breytingum og fjölbreyttu umhverfi. Reyndar rakst ég á áhugavert kínverskt spakmæli fyrir nokkrum árum sem ég hef ávallt haft í huga en það var á þessa leið: "Óttastu ei breytingar, óttastu það eitt að standa í stað".

Þá er kennaraverkfallinu senn að ljúka með málamiðlunartillögu sem vonandi verður samþykkt. Trúi ekki að kennarar ætli sér að hafna þeim kjörum sem eru í boði enda hefur framkoma samninganefndar hennar verið með hreinum ólíkindum. Mín reynsla í námi og vinnu er að í samningaviðræðum leggja menn upp með ákveðnar kröfur í upphafi sem þeir slá síðan aðeins af til að mæta hinum aðilanum á miðri leið. En að leggja upp með ófrávíkjanlegar kröfur í mikilvægustu málaflokkum er einungis hræsni og vanvirðing við hinn samningsaðilann. Með þessu hafa kennarar misst alla þá samúð og stuðning í samfélaginu sem þeir hafa þurft á að halda. Fyrir samfélagið hefur þetta verkfall haft mjög slæm áhrif á samfélagið og margar fjölskyldur en persónulega fyrir mig hefur þetta haft frekar jákvæð en neikvæð áhrif á mig. Meðan ég er í vinnunni milli kl 8 - 16:30 þá verð ég ekkert var við hvað krakkar eru að gera, hvort sem þeir eru í skólanum eða heima hjá sér. Kosturinn við þetta verkfall er að ég er mun fljótari í vinnuna á morgnanna þar sem umferðin á Borgarbrautinni er miklu léttari kl 8 á morgnanna.

Samt sem áður vil ég taka það fram að ég sem íþróttakennari að mennt er hlynntur því að kennarar fái góð laun en samt sem áður verða kennarar og aðrir að borga á laun í samræmi við vinnu. Kennarar hafa yfirleitt lokið vinnudegi kl. 14 á daginn. Þeir fá fleiri frídaga en nokkur önnur starfstétt á Íslandi. Þetta eru fríðindi sem verður að horfa til. Persónulega myndi ég vilja stokka algjörlega upp í þessu skólakerfi, láta kennara vinna frá 8-16 eða 17. Láta krakka sitja til 16 í skólum alla daga. Hafa íþróttakennslu fyrir alla krakka alla daga. Leggja mun meiri áherslu á raungreinar og þyngja námsefni í öllum aldurshópum. Þetta þýðir meiri kröfur til allra kennara, nemenda og foreldra en skilar sér í betur upplýstu samfélagi. Þegar þetta er raunveruleiki tel ég kröfu kennara um að fá há laun fullkomlega réttmæt. Eins og staðan er í dag tel ég kröfur kennarar óraunhæfar miðað við það starf sem þeir skila í dag.

Mér hreinlega blöskrar þær auglýsingar sem birtust með kennurum sem sögðust fá 130.000 krónur útborgað á mánuði. NOTA BENE þarna er verið að tala um grunnlaun. Þegar ég hóf kennslu á fyrsta ári hafði ég um 180.000 útborgað. Vissulega lág grunnlaun en þegar allt annað var tekið inní hækkuðu laun mínum um 50-70.000 krónur á mán. Þannig blöskrar mér þegar kennarar sem eiga að vera fyrirmyndir í samfélaginu koma fram með villandi upplýsingar til að öðlast samúð. Teljið upp frídaga ykkar og þau hlunnindi sem þið fáið sem aðrir á vinnumarkaðnum fá ekki. Að lokum er mín skoðun sú ef að fólk er ekki ánægt með laun sín þá á það einfaldlega að finna sér eitthvað annað að gera.

Kveð í bili er farinn til Brussel!!


Tuesday, October 26, 2004

Það fór eins og maður óttaðist mest, en því miður verður ekki hægt að fara til Tallinn eftir áramót. Hins vegar stendur mér til boða að ganga í skólann næsta haust. Það er því alveg spurning um að skrifa ritgerðina næsta hálfa árið og skella sér svo út í framhaldinu og taka nokkra áfanga. Þar sem ég átti alveg eins von á þessu ákvað var ég með áætlun B í bakhöndinni sem ég er nú að farinn að skoða.

Nú eru einungis 5 dagar þangað til ég fer til Brussel. Var að fá dagskrána og óhætt að segja að hún sé þétt og spennandi. Var reyndar að vona að Anderlecht væri að spila í meistaradeildinni á sama tíma og ég yrði þarna en því miður eiga þeir útileik. Hins vegar er ég að spá í að nota fríhelgina í að fara einhvern leik í belgísku deildinni. Fattaði reyndar að ég á heimkomu Laugardaginn 13. nóv liggur beint við að fara beint á djammið í bænum. Nú er bara spurning hver er tilbúinn í að tæma tollinn með mér:)


Monday, October 18, 2004

Brussel + Tallin

Eftir að hafa verið að skoða íbúði í Reykjavík í síðustu viku var tekin sú ákvörðun að salta það mál. Enda alltaf hægt að kaupa íbúð. Fékk þær fréttir að verið er að vinna í mínum málum varðandi umsókn í Viðskiptaháskóla í Eistlandi. Segja má að líkurnar séu orðnar miklar og ætti það að komast á hreint í þessari eða næstu viku hvenær og hvort ég fari til Eistlands. En af hverju Eistland? Svarið er einfalt. Þar sem ég tók Evrópufræðival í Masternum er Eistland mjög áhugaverður kostur þar sem um er að ræða smáríki er gekk inní ESB á þessu ári. Gríðarlegar umbreytingar hafa átt sér stað í þessu samfélagi þar sem að hagvöxtur hefur farið ört vaxandi undanfarin ár. Þarna má segja að efnahagslífið sé á vaxtarstigi eða frumstigi þar sem að gífurlegur hraði og breytingar eiga sér stað. Tel ég að þarna geta legið mörg tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki að hassla sér völl líkt og fyrirtæki í Þýskalandi og Skandinavíu hafa verið að gera á undanförnum árum. Ef allt gegnur að óskum mun ég fara einhvern tímann í janúar en heimferð með öllu óákveðin.

Næsta utanlandsferð er hins vegar til Belgíu eftir einungis tvær vikur. Dvalist verður í Brussel þar sem að alþjóðlegar stofnanir verða skoðaðar og farið verður í sendiráð til að sitja fyrirlestra. Vissulega verður ýmislegt annað brallað sem ég ætla ekkert að fara út í hér :)

Thursday, October 14, 2004

Ef kjarnorkustyrjöld myndi brjótast út og eyða nánast 99% af öllu af núverandi lífríki myndi ég veðja aleigu minni á að það væru kakkalakkar og Íslendingar sem myndu komast af. Þessar tvær skeppnur virðast vera þær hæfustu að aðlaga sig að þeim aðstæðum sem þær búa við.

Í samanburði við Ísland er Survivor einungis afslöppun og er ég hissa á að amerískar sjónvarpsstöðvar hafa ekki komið hingað til lands með myndavél og flygjast með landanum takast á við vandamál og þrautir hversdagsins. Í lok hvers dag mætti landinn síðan kjósa einn íbúa út úr landinu.

Íslenska þjóðin hefur um aldir búið við þær aðstæður að geta aldrei vitað hvernig veðrið á morgun verður nema með 80% frávikum. Hér á landi hafa allar veðráttur sína kosti, rigningin er góð fyrir gróðurinn, rokið fælir burt mýið, snjórinn er góður fyrir skíðafæri og sólin er góð 2% landsmanna sem hafa dökka húð. Yfirleitt verður manninum hugsað um þessa kosti þegar hann lítur út um gluggann í skammdegisþunglyndi sem varir 9 mánuði ársins, eða heila meðgöngu.

Í gegnum aldirnar hafa Íslendingar þjáðst af einhverri spennuáráttu. Helst vilja þeir búa á ystu nöf (on the edge). Sem dæmi um það byggja þeir krummaskurð undir hæstu og bröttustu fjallshlíðum landsins þar sem að líkurnar á snjóflóðum eru meiri en greindarvísitala Ástþórs Magnússonar. Ekki nóg með það heldur byggja Íslendingar þéttbýli á helstu jarðhitasvæðum landsins, hvaðan skyldi nú allt þetta hraun koma? Hvað gerir ekki Íslendingurinn þegar að hús hans skemmist í jarðskjálfta eða eldgosi? Jú,,hann reisir nýtt hús á nákvæmlega sama stað.

Hugvit Íslendingsins er einstakt. Eftir að fyrstu göngin voru boruð í gegnum fjall var nokkuð ljóst að áfram skyldi bora. Nú dugar ekkert minna en að bora göt fyrir milljarða króna til þess að hleypa nokkrum hræðum á milli tveggja krummaskurða. Í stað þess að það taki 20 manns á dag að keyra 40 mín þá tekur það bara 20 mín eftir að gangnagerð. En hvað gerist ef þessar hræður missa vinnuna. Þá er bara reist álver. Álver á Austurlandi, Norðurlandi,Vesturlandi og Suðurlandi,,og jafnvel Vestmannaeyjum,,Fyrir 2007!!. Það er bara lámarkskrafa en samt sem áður eru göngin milli Berjadalssveitar og Sauðanes í gegnum Sauðaberjafjall forgangsatriði þar með að bæði börnin í Sauðanesi ásamt bóndanum þurfa að keyra 25 km í skólann á hverjum degi í stað 15 eftir að göngin koma.

Á meðan að það er sprengt og borað hanga kennarar og börn landsins heima í verkfalli. Öllum er sama. Þjóðin hefur tekið þá ákvörðun að aðlaga sig að því. Þetta er ef til vill pínulítið lýsandi fyrir viðhorf landans gagnvart menntun. Peningum er dælt í stórframkvæmdir meðan skólar landsins eru svelltir. Þjóðin hefur ekki efni á að halda úti grunnskólum, háskólinn berst í bökkum og þjóðarbókasafnið þarf að skerða opnunartíma sinn vegna peningaskorts. Kannski skiptir menntun ekki svo miklu máli. Öldum saman lærði þjóðin lítið, hún bara vann myrkvanna á milli og aðeins örfáir stunduðu nám. Í raun er þetta verkfall bara mjög klókt. Fullt af börnum sem áttu að ljúka 10 bekkjar prófi í vor kemur til með að gefast upp í náminu. Þarna er komið gott framboð á ódýru vinnuafli sem hægt er að nýta í gangnagerð út á landi á næstu árum.

Á sama tíma og allt þetta er að gerast eru fjármálafyrirtæki landsins að skila methagnaði á hverjum ársfjórðungi. Á sama tíma borgar þjóðin hæstu vexti í heimi. Um leið er þjóðinni talin sú trú um að henni bjóðist ódýr lán. Að sjálfsögðu gleypir hún við þessu. Fyrir vikið rjúka allir til og kaupa sér íbúð. Afleiðingin?? jú hærra fasteignaverð og hærri lántaka, Niðurstaðan? Meiri skuldsetning heimilanna. Sigurvegari? Bankarnir....and you thought you could beat them:),,



















Sem betur fer hef ég misst af tveimur síðustu landsleikjum Íslands í fótbolta. Í raun er það engin tilviljun þar sem ég hef ekki nokkurn áhuga að sjá þetta miðlungslið. Í raun þurfa úrslit síðustu leikja ekki að koma á óvart þegar sá mannskapur sem spilaði leikina er skoðaður. Í raun má segja að í liðinu sé einungis einn heimsklassaleikmaður og einn góður leikmaður á alþjóðlegum mælikvarða. Þá er ég að tala um Eið og Hemma. Aðrir leikmenn eru hreinlega miðlungsleikmenn og varla það sem sést best þegar þau lið sem þeir spila með eru skoðuð. Það að fá á sig fjögur mörk á heimavelli þrátt fyrir að pakka í vörn er með öllu óafsakanlegt og ljóst að það þarf að skoða landsliðsþjálfaramálin upp á nýtt. Persónulega hefði ég viljað sjá Guðjón Þórðarson ráðinn þegar þeir Ásgeir og Logi voru valdnir enda árangur þeirra ekkert til þess að hrópa húrra fyrir. Sigurinn á úthaldslitlu B-liði Ítala ætlar greinilega að lifa lengi. Hins vegar tel ég að helsta vandamálið liggi í að framboð af góðum knattspyrnumönnum er um þessar mundir af skornum skammti sem sést best þegar íslenski landsliðshópurinn er skoðaður. Þarna eru menn sem varla komast í liðið hjá norskum miðlungsliðum eða eru valdnir vegna þess að þeir geta hlaupið. Er þá e.t.v. kominn tími til þess að velja Sigurkarl Gústavs og Jón Arnar í landsliðið enda úrvals hlauparar þar á ferð. Það er staðreynd að eftir að Eyjólfur Sv. hætti þá hefur vörn Íslendinga verið eins og höfuðlaus her og þegar Íslendingar hætta get spilað vörn þá get þeir endanlega ekki neitt.

Wednesday, October 06, 2004

Fjölgun

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum sem mér hafa borist þá virðist sem svo að fjölgun sé í Eyjólfs-fjölskyldunni. Reyndar voru skilaboðin á dönsku og stendur þýðing yfir. Nú virðist sem eftirnafnið Nielsen verður komið inní ættartré Eyjólfs-fjölskyldunnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Hver veit nema það verði hérna Eyjólfur Nielsen eða Þóra Nielsen sem sprikli hér á pallinum eftir einhverja mánuði. Reyndar hafa systkin mín það alltaf í pokahorninu að skýra Einar þar sem að frændinn á eftir að verða einhleypur ríkur maður sem erfir nafna sinn öllum sínum eignum árið 2069. Dánarorsök: Fall í stiganum á Hverfisbarnum.
Reyndar stór efa ég það enda hvorugt nafnið hægt að bera fram á dönsku. Það er margt sem á eftir að breytast. Ekki er ólíklegt að sérkenni fjölskyldunnar dvergvöxtur og ístra eigi eftir að glatast í sumruna við ríkjandi dönsk gen. Það sem ég óttast mest hins vegar er að ég eigi aldrei eftir að koma til með að skilja barnið. Reyndar er það ef til vill ekkert til að hafa áhyggjur af þar sem ég er fremur fámáll af eðlisfari og hver veit nema barnið verði það líka.

En hvað þýðir þetta? jú, næstu jólaboð og fjölskylduveislur verða óbærileg fyrir mig. Það er ljóst að maður þarf að svara fyrir það hvort að maður sé ekki að koma með eitt. Ætli ég svari því ekki bara þannig að ég sé búinn að láta fjarlægja bæði eistun þar sem ég hyggst fara leggja stunda á hjólreiðar. Þá er ekki einu sinni hægt að segja að það sé farið að klingja í mér. Held samt að það sé nú betra að spara yfirlýsingarnar þar sem að maður gæti nú dottið í hlutverk helgarpabba með minnsta fyrirvara eftir misheppnað markskot.

Þegar öllu á botnin hvolft er þetta bara jákvætt og frábær tíðindi sem við fengum frá Önnu og vonum við nú bara að allt gangi vel.

Annars er nú ekki mikið að frétta. Tók fínt djamm í bænum með Steinari og Nonna. Hitti síðan hluta af ÍKÍ liðinu í bænum. Þegar ég ætlaði heim (Til Nóa) um kl 6:30 var þvílík leigubílaröð að ég hef aldrei verið vitni að öðru eins í Reykjavík. Það bjargaðist samt sem áður þar sem að Nonni á góð sambönd í miðbænum. Næsta helgi hins vegar lofar góðu,,,Sauðamessa í Borgarnesi!!.