Monday, October 31, 2005


Íran – Vaxandi ógn

Þann 24. júní síðastliðinn fóru fram forsetakosningar í Íran þar sem harðlínumaðurinn Mahmood Ahmadinejad bar öruggan sigur úr bítum. Ahmadinejad lýsti sigri sínum sem nýrri íslamskri byltingu sem breiðst gæti um allan heim en sló á áhyggjur manna sem töldu að kjör hans myndi þýða að íslömsk harðlínustefna yrði ofan á Íran. Fullvissaði hann fólk um að stjórn hans myndi sneiða hjá öfgum og að framtíð Írans myndi endurspeglast í frelsi og mannréttindum íbúa þjóðarinnar.

En hver er reynslan af þessum nýkjörna forseta Írans?

Ljóst varð strax eftir kjör Ahmadinejad að samskiptin við Bandaríkin og aðrar Vesturlandaþjóðir myndu ekki batna enda hefur forsetinn gefið það út að hann vilji engin samskipti hafa við Bandaríkin.

Ótti Vesturlanda felst aðallega í kjarnorkuáætlunum Írana en Ahmadinejad telur það nauðsynlegt fyrir þjóð sína að framleiða kjarnorku til þess að fullnægja orkuþörf hennar. Íranir hafa rétt á að auðga úran og nýta til kjarnorku í friðsamlegum tilgangi samkvæmt samningum um bann við frekari útbreiðslu kjarnavopna. Það sem vekur hins vegar ugg er að þeir hafa neitað tilboði Evrópuríkja um að leggja fram tryggingu fyrir því að þeir hafa ekki í hyggju að smíða kjarnorkuvopn, þrátt fyrri að ESB hafi lofað efnahagsaðstoð fyrir vikið. Það sem ýtir undir ótta manna á kjarnorkuvæðingu Írans er að landið er ríkt að öðrum orkuauðlindum en landið býr yfir næstmestu gas- og olíuauðlindum í heiminum.


Loforð forsetans um frelsi og mannréttindi virðast byggð á veikum grunni en stjórnvöld í Íran hafa sett bann á kvikmyndir er þeir telja ýta undir kvenréttindi og veraldarhyggju. Þá hefur forsetinn bannað myndir er sýna eiturlyfjaneyslu, frjálslyndi, stjórnleysi og myndir er niðurlægja íslamska menningu. Stefna Ahmadinejad er að koma á fyrirmyndarríki að íslamskri fyrirmynd. Fyrirrennari Ahmadinejad, Mohammad Khatamis var ekki jafn öfgafullur en samt sem áður voru kvikmyndir ritskoðaðar og atriði voru klippt úr sem gætu farið fyrir brjóstið á sanntrúuðum. Leiddi þetta til aukinnar sölu gervihnattadiska þrátt fyrir að þeir séu bannaðir í Íran.
Til marks um afturhaldssemi Ahmadinejad lét hann sem borgarstjóri í Teheran loka skyndibitastöðum í borginni, skyldaði karlmenn að vera með sítt skegg auk þess sem skyrtur þeirra áttu að vera langerma.


Nýjasta útspil Ahmadinejad kom á miðvikudaginn síðastliðinn á ráðstefnu háskólanema í Teheran. Þar hélt vitnaði forsetinn í Atatollah Khomeini sem hélt því fram að nauðsynlegt væri að tortíma Ísrael. Þá bætti hann við að múslimi sem myndi friðmælast við Ísraela uppskæri heift trúbræðra sinna og sama ætti við íslamska leiðtoga sem semdu frið við stórnvöld í Ísrael. Er þetta í fyrsta skipti í mörg ár sem að hátt settur stjórnmálamaður hvetur til slíkra ódáða. Eðlilega hafa þessi orð Ahmadinejad vakið hörð viðbrögð á Vesturlöndum og hafa stjórnvöld víðsvegar í heiminum krafið íranska stórnarerindreka skýringar á ummælum forsetans. Ísraelar hafa til að mynda farið fram á að Írönum verði vikið úr Sameinuðu þjóðunum.

Þrátt fyrir að hafa verið einungis við völd í örfáa mánuði er Ahmadinejad strax farinn að valda taugatitringi á alþjóðlegum vettvangi. Hann er meðvitaður um að Íran er vaxandi stórveldi við Persaflóa sem ef til vill má rekja til hernaðar Bandaríkjamanna og fylgiþjóða í Írak eftir allt saman. Óvinurinn Saddam Hussein hefur verið fjarlægður og trúbræður Írana, sítar, hafa náð stjórn í Bagdad.

Ljóst er að fylgjast verður náið með framvindu mála í Íran. Þróun mála er snerta mannréttindi og viðhorf til alþjóðasamfélagsins er ekki ásættanlegt, því ber að taka ummæli Ahmadinejad alvarlega. Spennan fyrir botni Miðjarðarhafs á eftir að aukast í kjölfar ummæla Ahmadinejad og þurfa Vesturlönd að bregðast hratt og skynsamlega við. Koma þarf í veg fyrir að Bandaríkjamenn fari út í einhliða aðgerðir líkt og gert var þegar ráðist var inní Írak en slíkar aðgerðir væru einungis til þess fallnar að hella olíu á eldinn. Mikilvægt er að ná samstöðu innan alþjóðasamfélagsins um hvernig samskiptum við Íran skuli háttað á næstu misserum og í framtíðinni.

Sunday, October 30, 2005

Nýtt útlit!!

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá er komið nýtt útlit á síðuna hjá mér. Ástæðuna má rekja til þess að nú er maður að fara ganga inní nýjan áratug og nú fer maður að setja sér ný markmið og áherslur.

Kosturinn við þetta útlit er líka það að þarna má sjá gömlu pistlana t.d. frá því að bloggið byrjaði í Þýskalandi 2002, blogg frá A-Evrópuferðinni okkar Emma (Nóa) og Kobba (Svamps), blogg frá Brussel ferðinni og blogg frá verunni útí Eistlandi frá fyrri hluta þessa árs.

Ætla ég mér að vera duglegri að skrifa nú en upp á síðkastið en ekki veit ég hvort að pistlarnir verði eitthvað í svipuðum dúr og verið hefur.

Friday, October 28, 2005