Saturday, September 30, 2006

Lífið í Genf gengur sinn vanagang. Þrátt fyrir að hér búi c.a. 400.000 manns finnst manni oft á tíðum að maður sé staddur á Akureyri, þar sem að róleg heitin eru slík og stressið lítið.

Ég hef það mjög gott hérna en það eina sem virkilega angrar mig er sjónvarspefnið. Ég er með 35 sjónvarpsstöðvar en því miður get ég ekki horft á nema 4 þeirra. Hinar eru franskar, þýskar eða ítalskar sem þýðir að allt sjónvarpsefni er talsett yfir á áðurnefnd tungumál. Búinn að gera heiðarlega tilraun til þess að horfa á Friends, Simpson og ýmsar bíómyndi á áðurnefndum tungumálum en þvílík hörmung. Þar af leiðandi sit ég uppi með að horfa á CNN, BBC news, BBC Prime og CNBC dag eftir dag. CNN er sú allra versta af þessu þar sem að fluttar eru fréttir af Íraksstríðinu og Íran allan sólarhringinn. Er maður orðinn svo involveraður í þetta að maður getur orðið borið fram nafnið á íranska forsetanum Mahmoud Ahmadinejad.

Gerði reyndar ekki mikið í vikunni annað en að vinna. Fór reyndar á ráðstefnu hjá WTO. Þar voru ýmis málefni rædd í mörgum fundarherbergjum og fór ég á Panel þar sem að fjallað var um innflytjendur. Ástæðan fyrir því að ég valdi það var að í vikunni var samþykkt löggjöf sem mun gera það verkum að innflytjendur eiga mun erfiðara með að komast inní landið og geta fengið störf. Það sem er athyglisverðast er að fjöldamörg önnur ríki vilja gera það en hafa ekki kjarkinn til þess. Í mörgum löndum Evrópu hafa svokallið öfga-hægri flokkar (far right parties) aukið fylgi sitt en stefna þeirra byggist á að koma í veg fyrir innstreymi innflytjenda og í mörgum tilfellum á kynþáttahatri. Á Ítalíu er stefnt að taka upp stefnu er miðar að því að koma í veg fyrir streymi innflytjenda þar sem að ofbeldisverkum hefur fjölgað gífurlega þar í landi sem rekja má til innflytenda. Las til að mynda grein í Economist þar sem að múslimsk táningsstelpa var drepin af föður sínum þar sem hún einfaldlega aðlagaðist of vel ítölsku samfélagi þ.e.a.s. að hún gekk í gallabuxum, vann á daginn og átti ítalskan kærasta. Faðirinn var handtekinn ásamt nokkrum öðrum fjölskyldumeðlimum. Önnur frétt sem ég sá á BBC News var að í hverri viku koma um 500 flóttamenn frá V-Afríku til Kanarýeyja í ryðguðum fiskibátum. Þar eru þeim haldið í tvo mánuði í flóttabúðum í tvo mánuði þangað til að þeim er flogið til meginlands Spánar og sleppt og þeim sagt að redda sér heim. Einmitt....hve margir af þeim panta sér flug til Afríku eftir að hafa fengið frelsið?
Það er mín skoðun að þetta verður eitt helsta málefni ESB á næstu misserum.

Þetta er þó ekki bara vandamál í Evrópu. Í Asíu eru sömu vandamál, þar sem að fólk flýr frá fátækum löndum í Afríku til ríkari ríkja. Til þess að bregðast við þessu hafa sum af ríkari ríkjunum sett í lög að allir innflytjendur verði að læra tungumál þess lands sem þeir vinna í til þess að geta dvalist í því. Japanir líka og Íslendingar hafa átt erfitt með að fylla í stöður umönnunar í heilbrigðisstofnunum. Hafa þeir tekið skyldað alla erlenda starfsmenn að taka 6 mánaða kúrs í japönsku. Þetta er ef til vill eitthvað sem Íslendingar gætu horft til, þar sem eldra fólk á dvalarheimilum á Íslandi talar ekki ensku, tælensku eða pólsku. Þetta er ekki kynþáttahatur eða þjóðernishyggja, heldur einungis spurning um að það fólk sem kemur til ákveðins menningarsvæðis tileinski tiltekna siði og venjur í stað þess að ætla þess að umhverfið aðlagist það þeim. Ég hef verið útlendingur í Englandi, Þýskalandi, Eistlandi og Sviss. Ég hef aðlagað mig að þeim staðháttum fyrir voru. Ég hef lagt það á mig að fara nakinn í sameiginlegt sána, heilsa hverjum leikmanni fyrir hverja fótboltaæfingu, heilsast með þremur kossum á hvora kynn og svo framvegis. Ég ætlast ekki til þess að fólk hér borði svið í febrúar, verði blindfullt um helgar, horfi á Rock Star Supernova, að það sé kúl að vera tanaður (gervibrúnka) og með strípur, líkt og á Íslandi.

Ef ég myndi flytja til Asíu eða Afríku yrði það bara að vera þannig að ég yrði að taka upp þá siði og þær venjur sem fyrir eru. Ég mætti vissulega halda einhverju af mínum venjum og siðum en ég ætti ekki að troða þeim upp á þeim sem eru ríkjandi. Þetta er vandamálið sem Evrópa stendur frami fyrir. Langar mig að benda á áhugaverða grein eftir Ayaan Hirsli Ali 'Everyone Is Afraid to Criticize Islam' en hún hefur neyðst til að fara í felur eftir að hafa gagnrýnt múslima.

Skal alveg viðurkenna það að á Íslandi gerði maður sér enga grein fyrir hversu mikið vandamál þetta er í Evrópu enda hlutfall innflytjenda enn lágt á Íslandi. Það skiptir því máli að byrgja brunninn svo við stöndum ekki í sömu sporum og hinar Evrópuþjóðirnar. Við þurftum ekki horfa lengra en til Norðurlandanna, sem vita ekki í hvorn fótinn þau eiga að standa í málefnum innflytjenda. Ef ekki verður tekið hart á þessum málefnum sem vissulega eru viðkvæm má búast við að vandamálin haldi áfram að vaxa. Atvinnuleysi eykst meðal innflytjenda, glæpatíðni eykst, togstreyta og fordómar milli ólíkra þjóðfélagshópa aukast, innflytjendur einangrast frekar, öfga hægri flokkar fá aukið kjörfylgi og svo framvegis.

Tuesday, September 26, 2006

Finnur þú Íslendinginn á myndinni?














Í vor var ég nokkuð duglegur að fara í íþróttahúsið við HÍ þar sem ég fór í ræktina. Í búningsklefanum var maður var við gamlar kempur á eftirlaunaaldri sem héldu sér í formi með að koma saman og spila blak. Eftir eina æfingun er ég í sturtu og sé út undan mér að eldri maður horfir óeðlilega mikið á mig. Reyndi ég að láta lítið á því bera að mér þætti þetta augnráð fremur óþægilegt og snéri mér undan í sturtunni um leið og ég þvoði á mér hárið með sápu. Þegar ég hafði lokið við að skola sápunni frá andlitinu sný ég mér við og bregður nokkuð við þar sem að gamli maðurinn stóð nú beint fyrir framan andlitið á mér. Ekki vissi ég á hverju ég átti von á þar til að sá gamli segir “ert þú Íslendingur?”.

Síðastliðinn miðvikudag þ.e. fyrir um það bil viku síðan fór ég í boð hjá Fastanefnd Íslands hér í Genf. Þar var töluvert af fólki og kom mér nokkuð á óvart hve mikið af Íslendingum er hér á staðnum. Boðið var mjög veglegt, nóg af áfengi og góður matur. Þar átti ég spjall við áhugaverðan einstakling að nafni Jón og þegar við höfðum spjallað í dágóða stund kemur þar að kona er þekkti þennan mann. Horfir hún á mig í dágóða stund og eftir skamma óþægilega þögn spyr hún kurteisislega “ert þú Íslendingur?”.

Er þetta reyndar ekki í fyrsta skipti sem ég er spurður að þessari spurningu, eða spurningum er tengjast væntanlega útliti mínu að ég tel. "Can I help you?" hefur hljómað oftar en einu sinni þegar ég hef verið staddur á veitingastöðum eða í verslunum á Íslandi. Mér þætti gaman að vita hversu oft Duranona, Leoncie eða Bobby Fisher hafa þurft að svara þessari spurningu "ert þú Íslendingur?".

Saturday, September 23, 2006

Það er ef til vill kominn tími til að láta heyra frá sér þar sem maður hefur nú verið á erlendri grundu í nokkrar vikur.
Ferðin hófst mánudaginn 28. ágúst þegar við Maj-Britt flugum til Danmerkur. Við fengum íbúðina hennar Önnu Stínu undir okkur sem kom sér mjög vel. Gerðum reyndar ekki mikið merkilegt á mánudeginum nema að berjast við að halda okkur vakandi enda fór sunnudagurinn allur í flutninga og í að pakka. Á þriðjudeginum fórum við til Kaupmannahafnar þar sem farið var niðrá Nýhöfn, á Strikið og út að borða á indverskum stað. Miðvikudagurinn var svipaður þar sem við kíktum í Kristaníu og fengum okkur að borða,,,,what else?
Fimmtudagurinn rann upp. Var haldið upp á flugvöll þar sem að leiðin lá til Genf þar sem ég mun vera næstu sex mánuði. Reyndar þurfti ég að sækja töskuna mína sem Icelandexpress tókst að týna á leiðinni frá Keflavík. Lentum við í Genf í 25 stiga hita sem hefur haldist nánast óbreyttur síðan. Skal alveg játa að ég er orðinn frekar þreyttur á þessum hita þar sem maður er alltaf í sturtu að skola af sér svitan.

En hvernig er Genf?
Genf kom mér nokkuð á óvart. Mér líður reyndar miklu frekar eins og ég sé í Frakklandi en nokkurn tímann í Sviss. Veit eiginlega ekki hvort það sé jákvætt eða neikvætt þar sem að Frakkar hafa alltaf farið í taugarnar á mér. Í Sviss eru töluð fjögur tungumál þýska, franska, ítalska og rómanska. Ég er staddur í frönskum hluta Sviss sem gerir það að verkum að allir tala frönsku,,nema ég. Í rauninni get ég enganveginn gert mér grein fyrir hvernig Sviss er þ.e. hvernig hinn dæmigerði Svisslendingur lítur út, hvernig landið er og þess háttar. Annað sem gerir það að verkum að mér finnst ég sé í Frakklandi en Sviss fyrir utan tungumálið er fólkið hérna. Hérna er gríðarlega mikið að af svörtu fólki, asíubúum og Indverjum. Hlutfallið skiptist gróflega í Svertingjar 40%, Latino (Spánverjar og Frakkar) 25%, Asíubúar 20%, Aríar 10%. Indverjar 5%. Set ég mig í flokk með Latino þar sem oftar en ekki er talað við mig á frönsku. Þess ber þó að geta að ég bý í miðbænum og sé því alla flóruna, það kæmi mér ekki á óvart að hlutfallið væri allt annað þegar komið er útfyrir miðbæjinn.

Genf er mjög dýr borg og með dýrari borgum í Evrópu. Þar sem maður kemur frá Íslandi þá bregður manni ekki að sjá háa reikninga, ekki síst þegar þeir eru þrátt fyrir það lægri en gengur og gerist almennt á Íslandi. Bjórinn á veitingastað er á c.a. 400 krónur.

Annars gengur bara ágætlega í vinnunni. Búið að vera mikið að gera eftir fremur rólega byrjun. Hef verið undirbúa fundi, þ.e. að gera fundarskrár, speaking notes og senda út fundarboð. Hef líka að verið að vina með tölfræði og gera landaskýrslur sem notaðar eru fyrir samningaviðræður við þriðju ríki. Var t.d. í síðustu viku að gera skýrslu um Kólumbíu og Perú. Andrúmloftið á vinnustaðnum er mjög létt, alltaf opið inná alla skrifstofur og mikið djókað. Kom mér eiginlega mjög á óvart hversu óformlegt þetta er allt saman þarna, minnir oft á the Office. Sérstaklega þegar menn fara sparka bolta á milli sín á göngunum. Held reyndar að fólk sé líka mjög ánægt þar sem að skipt var um yfirmann sem er víst mun meira liberal en sá sem var á undan. Er líka búinn að ferðast í vinnunni. Fórum til Luxemborg þar sem að allir starfsmenn EFTA hittust og skemmtu sér og stilltu saman strengi sína. Reyndar dálítið fyndið að hótelið sem við dvöldum á var í Luxemborg en fundarsalurinn sem var 400 metra frá var í Frakklandi, þannig að maður er þá búinn að koma til Frakklands líka. Síðan fer í starfsmannaferð (Unit travel) til Madrid í næsta mánuði, ásamt því sem ég ætla að hitta Maj-Britt í París helgina á undan. Þannig að það er nóg að gerast framundan. Verð að játa að mér er eiginlega farið að hlakka til að snjórinn kemur þá getur maður farið að fara í alpana á skíði en það verður þó væntanlega ekki fyrr en í desember. Annars er bara fínt veður hérna enn þá hitinn upp undir 25 stig á daginn.

Ætla núna að fara skella mér Liverpool og Tottenham hérna á pöbbnum.