Wednesday, June 21, 2006

Roskilde

Þá er ekki nema tæp vika þangað til maður leggur í hann til Danmerkur. Farinn að hlakka mikið til að fara á Roskilde tónleikana. Hlakka mest til að sjá Franz Ferdinand, Guns’n Roses og Sigurrós en þó verða eflaust eitthvað af böndum þarna sem eiga eftir koma manni á óvart.

Það sem gerir það að verkum að manni hlakka enn meira til að fara út en ella er þetta skítaveður sem búið er að vera hérna í sumar. Hitastigið vart búið að fara yfir 10 stigin í sumar og sólskinsstundirnar eru taldar í mínútum. Kenni því alfarið um að í dag er ég rótkvefaður og slappur.

Mikið um að vera hjá mér næstu helgi. Á föstudaginn verð ég að dæma á Sparisjóðsmótinu í Borgarnesi þar sem að um 800 krakkar munu verða í nesinu. Á laugardaginn er svo brúðkaupið hjá Finni og Thelmu, þar sem verður væntanlega djammað frameftir kvöldi. Um að gera að skemmta sér vel áður en maður heldur til Danmerkur, þarf reyndar að fara í Stykkishólm að keppa á mánudeginum ef nárinn verður orðinn góður fyrir þann tíma.

Fékk ansi góðar bólgueyðandi töflur við náranum á mánudag, hefði betur lesið leiðbeiningarnar áður en ég dældi þeim. TAKIST EKKI Á FASTANDI MAGA!. Vildi ekki betur til en að ég tók eina í morgunmat á fastandi strax á þriðjudagsmorgun þegar ég vaknaði. Ákvað svo að keyra til Reykjavíkur þar sem ég hugðist borða morgunmatinn. Ferðin gekk ágætlega framan af þar til komið var í Melasveitina þar sem mig var farið að syfja óeðlilega mikið. Margir samverkandi þættir gerðu það að verkum að ég var kominn að þröskuldi draumalandsins. Augnlokin urðu á þyngd við Ara Hauks, bílsætið í Almerunni virkaði eins og Lazy Boy og útvarpsþulurinn hljómaði eins og Ásgeir Kolbeins......þá fyrst hrökk ég upp. Lagði ég bílnum smástund og fékk mér frískt loft, áður en ég lagði aftur af stað til Reykjavíkur.

Af öðru leyti er það að frétta að maður bíður enn eftir svörum af störfum sem ég hef sótt um erlendis. Reyndar svolítið hræddur um að EFTA dæmið hafi klikkað á síðustu stundu þar sem ekki var hægt að ná í meðmælanda minn þegar á þurfti að halda. Frekar svekkjandi þar sem að um var að ræða skemmtilega vinnu sem hefði opnað á fleiri möguleika á erlendum vettvangi. Spurning um að maður sæki bara um hjá PETA í staðinn, vantar alla vega fólk í vinnu, mjög sveigjanlegur vinnutími og skemmtilegur vinnustaður.