Thursday, June 09, 2005

Eistland-Portúgal

Í gær fór ég á landsleik Eistlands og Portúgal sem endaði með sigurmarki Ronaldo. Eiginlega er forsaga þess hvernig ég komst á leikinn öllu áhugaverðari. Þannig var að Michael vinur minn frá Sviss fór upp á fjórðu hæð á Radison Hótel þar sem er veitingastaður og gott útsýni yfir Tallinn. Þegar hann var þar uppi komu þeir Figo og Petit inná staðinn ásamt forseta portúgalska knattspyrnusambandsins. Fór hann og fékk eiginhandaráritun hjá þeim og spurði hvar væri hægt að fá miða á leikinn. Dró þá forsetinn upp miða og gaf honum VIP miða á landsleikinn.

Nú kem ég til sögunnar. Þannig var að Michael þurfti að fara heim sama dag og leikurinn var og komst því ekki á leikinn og var hann mjög niðurbrotinn yfir því. Hann varð hins vegar enn niðurbrotnari þegar hann fattaði það að hann hefði verið með myndavélina í vasanum þegar hann hitt Figo og Petit. Ég verð að játa að ég hef sjaldan séð niðurbrotnari mann. Ákvað hann að gefa mér miðann sinn þar sem hann sagðist aldrei hafa séð sjúkari knattspyrnuáhugamann og sem verðlaun fyrir meistaradeildina.

Skellti ég mér á leikinn í gær og mætti í VIP stúkuna þar sem ég sat í hópi Portúgala sem flestir voru jakkaklæddir og ásamt leikmönnum úr 21 árs landsliði Portúgala. Þar sat ég við hliðina á strák sem heitir Hugo Almeida sem spilar með Boavista en ég verð að játa að ég þekki ekki mikið til hans en verður forvitnilegt að fylgjast með honum í framtíðinni. Spjallaði ég aðeins við hann en hann var mjög forvitinn um Ísland og spurði talsvert um land og þjóð.

Leikurinn var alveg ágætur þó svo að Portúgalir hafi verið mun betri, sérstaklega í fyrri hálfleik. Ronaldo skoraði síðan í seinni hluta fyrri hálfleik eftir sendingu frá Figo. Reyndist það sigurmarkið þrátt fyrir að Eistar hafi fengið ágætis færi til að jafna á síðustu mínútu leiksins.

Eftir leikinn var síðan farið í kaffi í sérstöku herbergi þar sem að leikurinn var ræddur þar sem að þeir sem voru í VIP stúkunni fengu inngang. Þarna hitti maður voru einhverjir stórkarlar úr viðskiptalífinu bæði frá Eistlandi og Portúgal ásamt leikmönnum 21 árs liðsins. Síðar komu nokkrir leikmenn úr báðum liðum inní herbergið en því miður ekki allir. Þeir sem ég þekkti þarna úr voru Deco, Tiago og Alex. Þarna var ég ásamt félaga mínum frá Portúgal sem fékk hinn miðann frá Michael í c.a. hálftíma þar sem við gengum á milli manna og spjölluðum um leikinn. Alla vega þá var ég virkilega sáttur við þennan dag og ég reikna með að vera ekkert að segja Michael of mikið frá þessu þar sem hann myndi endanlega fríka út.