Sunday, November 17, 2002

Til hamingju með daginn Anna !!

Ég fékk það verðuga hlutskipti að eignast systir í þessu lífi og einn bróðir en það eiga eitt af hvort er ekki sambærilegt. Þar sem ég eignaðist eldri systir varð raunin sú að á tímabili átti ég tvær mæður, eina sem verndaði mig þegar hin skammaði mig og svo öfugt. Eftir því sem orðaforðinn minn var fjölbreyttari og hugsun mín sjálfstæðari leiddi það til þess að ekki var hægt að siða mig með orðum þannig að eldri systir mín beitti líkamlegum styrk sínum. Þessi meðferð líktist oft aðferðum Nasista í seinni heimsstyrjöldinni og hefur þessi meðferð sem ég fékk oft verið kennd við “Systisma”.

Systismi lýsir sér fyrst og fremst í líkamspintingum og stjórnsemi. Líkamspintingarnar hætta venjulega þegar að yngri bróðirinn hefur nægilegan styrk til þess að yfirvinna styrk eldri systurinnar. En systirinn deyr ekki ráðalaus, því þá tekur við stjórnseminn þar sem að systirinn notfærir sér uppeldisreynslu sína frá foreldrum sínum og yfirfærir það yfir á yngri bróðirinn. Við þessar aðstæður verður oft fjandinn laus og höfuðandstæðingur yngri bróðursins verður eldri systirinn. Handalögmál, rifrildi og allskyns skæruhernaður verður daglegur viðburður á heimili foreldranna.

Þegar systirinn svo loks flytur að heiman lítur yngri bróðurinn svo á að hann hafi sigrað orrustuna þar sem óvinurinn hefur gefist upp. Fyrsta skrefið í fagnaðarlátunum er að ráðast inn á fyrrum yfirráðasvæði systurinnar þ.e. herbergið hennar og gera sig heimakominn þar. Eftir því sem fjarlægðin verður lengri milli systkinanna og þau hittast sjaldnar verður yngri bróðurinn var ákveðnar tilfinningar gagnvart systur sinni sem hann hefur ekki fundið áður, einhverskonar tilfinning sem er samanblanda af söknuði, væntumþykju og öryggisleysis verður vart. Samskipti systkinanna taka stakkaskiptum eftir þetta og yngri bróðurinn veit að hann getur alltaf leitað til eldri systur sinnar þegar eitthvað bjátar á. Þegar þau hittast verða ekki þrumur og eldingar eins og áður, þrátt fyrir pínu nagg og nöldur öðru hverju í systirinni er það bara til þess að minna á að hún ræður einhverju enn þá. Maður sér það síðar að allt þetta nöldur þýðir með öðrum orðum “mér þykir vænt um þig og þetta er þér fyrir bestu” ….Já í dag þakka ég fyrir að hafa fengið það hlutskipti að eignast eldri systur.

Elsku Anna mín enn og aftur til hamingju með daginn!! og svo er það Maggi bróðir sem á afmæli á morgun,,,