Góðir Íslendingar ykkar er valið?
Það eru ekki svo lítil lætin í íslensku samfélagi þegar Davíð Oddsson opnar munninn. Þar fer á ferðinni einn valdamesti einstaklingur í íslensku þjóðlífi. Ég hef sagt skoðun mína á Davíð og bæði hrósað honum gagnrýnt eftir því sem við á. Hins vegar tel ég að við eigum betri forsætisráðherra en Bretar og ekki síst ítalir og langar mig að minnast nokkrum orðum á Sivio Berlusconi forsætisráðherra Ítala, auk þess að fara með forsetisvaldið á Evrópuþingi ESB þetta árið.
Hér er um að ræða eitt spilltasta kvikindi jörðinni. Í teiknimyndum hafa hýenur og kettir fengið það hlutverk að vera tákn óheiðarleika og undirförulmennsku. Hér eftir ætti það að vera Berlusconi.
Rétt fyrir jólin hvarf þessi geðugi einstaklingur af sviðsljósinu eftir að hafa verið daglegur gestur í fjölmiðlum. Ekki nóg með það að hann sé bara forsætisráðherra heldur á hann stærstu fjölmiðlana þar í landi. Ekki ósvipað og Davíð ætti Fréttablaðið og DV með Morgunblaðinu. Nú hefur ekki sést til Berlusconi í um mánuð og ástæðan....jú karlinn skellti sér í lýtaaðgerð. Á meðan að Berslusconi hefur verið að jafna sig eftir lýtaaðgerðina hefur ekki verið mikil lognmolla í kringum embætti hans.
Ítalska fyrirtækið Parmalat varð gjaldþrota eftir eitt mesta hneyksli og spillingu síðari ára á Ítalíu. Bréfasprengjur hafa verið sendar leiðtogum ESB og fyrr í þessari viku þá ógilti ítalskur dómstóll lög sem veittu Berlusconi og öðrum embættismönnum friðhelgi frá lögsóknum. En hann á yfir sér ákæru vegna meintrar spillingar þar sem hann er ásakaður um að hafa reynt að múta dómara.
Allt þetta hefur gerst á meðan Berlusconi hefur verið að jafna sig eftir erfiða aðgerð á andliti og hann hefur ekki séð sig fært um að tjá sig um þetta eða taka á málunum.
Oftar en einu sinni hefur þessi maður gert allt vitlaust bara í fyrra hélt hann því fram að fasistaleiðtoginn Mussolini hefði aldrei drepið nokkurn mann heldur einungis sent fólk í frí. Sannleikurinn er hins vegar sá að þetta svokallaða "frí" felst í því að 8.000 ítalskir gyðingar voru leiddir í útrýmingarbúðir nasista í Þýskalandi og Póllandi.
Þetta er nú ekki allt því í fyrra lét hann þau orð falla í garð þýsks þingmanns á Evrópuþinginu, að hann væri kjörinn í hlutverk fangabúðavarðar nazista í kvikmynd, eftir að þeim hafði sinnast.
Það væri nú gaman að sjá viðbrögðin í íslensku samfélagi ef Davíð Oddsson myndi hverfa í mánuð þar sem að hann væri í lýtaaðgerð og á sama tíma yrði Landssíminn gjaldþrota, ráðherrar fengju bréfasprengjur og forsætisráðherra ætti yfir sér kærur vegna mútutilrauna.
Nei sem betur fer eigum við málglaðan og afskiptasaman forsætisráðherra. Svo málglaðan að hann fær jafnan á sig kærur fyrir meiðyrði. Hann fer ekki í lýtaaðgerðir heldur í megrun nokkrum sinnum á ári. Að lokum þá er hann ekki að múta mönnum heldur ásakar menn um að reyna múta sér.
Jamm þeir eru skrautlegir hvor á sinn hátt......Þá kýs ég nú frekar Davíð