Friday, February 18, 2005

Erfiðir dagar og kínversk aftaka

Ég verð að játa að mig langar ekki mikið til þess að upplifa síðustu 5 fimm daga. Á sunnudaginn vaknaði ég í hreinu helvíti. Með dundrandi hausverk, beinverki og gjörsamlega máttlaus. Versta þynnka ever en ólýkt öðrum þynnkum þá hvarf þessi ekkert upp úr kvöldmatarleytinu. Hún viðhélst allan sólarhringinn. Var deginum eytt á nærfötunum upp í sófa þar sem ég fékk gott innsýn inní þá sjónvarpsmenningu sem ríkir hér í Eistlandi, kem ég að henni síðar.

Ekki fór ég út úr húsi þennan dag heldur hreinlega beið eftir að þessum degi lyki. Ekki kom ég neinu ofan í mig nema einni samloku sem ég út bjó mér a la english breakfast þ.e. ristað brauð, egg og beikon. Fór ég upp í rúm um tvö leytið um nóttina enda tími daginn eftir.

Þegar ég vaknaði um mánudagsmorguninn var heilsan ögn skárri en samt sem áður var ég mjög slappur og fór mig að gruna að eitthvað væri nú meira að en bara þynnka. Fór ég niðri skóla til að fara í tíma en honum hafði verið aflýst vegna veikinda kennara. Ákvað ég þá að fara heim aftur og keypti mér hitamæli í leiðinni. Eftir mælingu um kvölmatarleyti var niðurstaðan að ég var kominn með 39 stiga hita sem náði mest 40 stigum um miðnætti. Ekki tók við gæfuleg nótt þar sem sofnaði ekki fyrr en um 5 leytið og var vaknaður aftur um kl 9.

Um kl 13 á þriðjudag var ég með 39 stiga hita en þar sem að hitastigið úti var -2 gráður ákvað ég að skella mér niðri skóla til þess að taka niðurskurðarpróf í áhugaverðasta áfangan sem er í boði þ.e hagnýt viðskipti á Eistrasaltsríkjunum. Í þessum áfanga ef farið í gegnum viðskiptamenningu ríkjanna, hvernig skal snúa sér í viðskiptum hérna o.s.frv.. Það sem er samt áhugaverðast er að farið er í fyrirtæki hér í Tallinn og jafnvel í fyrirtæki út á landi og þau skoðuð. Þá eigum við sjálf að fara í fyrirtæki og taka viðtöl við framkvæmdastjóra og þess háttar. Málið var að upphaflega mættu um 60 manns en áfanginn er einungis ætlaður fyrir 30. Af þessum 60 má telja að 45 kínverjar hafi verið á staðnum, hvaðan sem þeir komu nú því ég hafði einungis séð tvo á ganginum áður í skólanum.

Fór ég í prófið og gekk svona ágætlega miðað við aðstæður en var hreinlega að leka niður. Þegar heim var komið tók við erfiðasta kvöld sem ég hef átt erlendis. Um kvöldið lá ég örmagna í sófanum og hitinn var kominn í 40,7 stig. Ekki nóg með það heldur lá ég andvaka til 8 um miðvikudagsmorguninn. En þá náði ég smá kríju til hálf tólf, var þó alltaf að vakna á milli því mig grunnar að dýnan í rúminu mínu sé gerð úr stein- eða stál ull.

Ætlaði ég að taka það rólega heima á miðvikudaginn og reyna ná mér þokkalegum mundi ég allt í einu eftir að ég hafði gleymt að skrá mig í ferðina til Saamuraa eyjunnar um helgina þannig að ég þurfti að fara aftur í skólann. Þar sem að hitastigið var áfram -2 og hitinn hjá mér var 39 gráður var 37 stiga meðaltalinu náð. Þegar ég kom hins vegar í skólann tilbúinn að skrá mig var mér tjáð að búið væri að fresta ferðinni þar sem að ekki var nóg þátttaka. Hvernig stendur á því?
Jú, svarið er einfalt. Hér eru um 25 Erasmus stundentar viðsvegar frá. Vandamálið er hinsvegar að hér eru 13 Frakkar sem er einfaldlegar 13 Frökkum of mikið. Allsstaðar þar sem að Frakkar koma við sögu er andstæða, aldrei samstæða. Ef þú sérð Frakka tala við sjálfan sig þá þarftu ekki að bíða lengi þangað til að hann byrjar að fórna höndum og rífast við sjálfan sig. Ekki voru skráðir nema 10 í ferðina þegar ég ætlaði að gera upp þannig að ég fór aftur heim í sýklabælið á Vífilsstöðum. Hafði ég þó vit á því að kaupa mér asperín á heimleiðinni.

Verð ég að játa að mig hlakkaði ekki mikið til að fara í rúmið eftir reynslu fyrri nætur. Ákvað ég að gleypa í mig tvær asperín fyrir svefnin sem gerði það verkum að ég var búinn að festa svefn um kl 2 og var ekki vaknaður fyrr en um kl 12 daginn eftir. Heilsan þennan fimmtudag var bara með skásta móti hitinn bara nokkrar kommur og ég skellti mér skólann og síðan var ég kominn með hálfa löppina uppí strætó til að skella mér á skauta. Þá kom einhver rödd sem ég hef ekki heyrt lengi eða ekki síðan ég hætti við að setja Magga bróðir í bakarofninn fyrir mörgum árum,,jú rödd skynseminar. Hún sagði að það væri skynsamlegra fyrir mig að slaka á þetta kvöld heima og ná mér góðum fyrir helgina. Auðvitað hugsaði ég náttúrulega....þá get dottið almennilega í það.

Annars fékk niðurstöðurnar úr prófinu og var ég ekki á þessum aftökulista heldur voru þarna nöfn 29 kínverja og til málamiðla var einum þjóðverja fórnað, bara svona til að jafna gamlar skuldir.

Það sem stytti mér erfiðar stundir gegnum vikuna var sjónvarpið. Þar sem ég er með gervihnattasjónvarp sé ég útsendingar frá Þýskalandi, Finnlandi, Svíðþjóð, Eistlandi og ekki síst Rússlandi. Allir vita að eitt leiðinlegasta sjónvarpsefni finnst í Þýskalandi þar sem að allt erlent efni er talsett. Rússarnir gera betur enda þarf ekki að koma á óvart að þeir fari að setja ótalsettar bandarískar myndir í loftið, ef svo ólíklega vill til að sýni amerískar myndir. Rússarnir talsetja hreinlega allt sem fer í loftið, hvort sem það eru auglýsingar eða heimildaþættir og þeir eru svo sannarlega ekki að bruðla með talsetninguna. Fyrir hverja mynd eða þátt er einn talsetjari þannig að það er sama röddin sem les fyrir allar persónurnar í myndinni, hvort sem það eru karlar, konur eða börn. Ekki er einusinni verið að hafa fyrir því að breyta áherslum í röddinni. Þegar myndin byrjar og endar þá les talsetjarinn upp alla stafina sem koma upp á skjáinn sem þ.e. hverjir eru leikarar, leiksjóri, hljóðmaður og þess háttar. Reyndar hættir hann oft þegar of margar upplýsingar koma í einu.

Fannst mér þetta mjög fyndið fyrst eða þar til að ég sá Engla Alheimsins á einni rússnesku stöðinni þá var þetta eins og að horfa á myndina silent með rússneskum undirlestri.
Einu skiptin sem ég skipti núna yfir á rússnesku stöðvarnar er til þess að horfa á gamlar rússneskar myndir sem eru algjört meistarastykki. Í einni tökunni er brjálaður eltingaleikur í gangi og þá kemur allt í einu 5 sekúndna klippa í lit af einhverri lækjaruppstrettu og síðan kemur aftur svört-hvít mynd af eltingarleiknum. Svona getur þetta gengið í mínútur og þriðja klippan sem kom síðan inní seríuna var svört-hvít mynd af af brosandi gamalli tannlausri konu í ruggustól fyrir framan einhvern eymdar kofa. Þetta er ekki versta dæmið um rússneskt sjónvarp. Er mikið að spá í hvort hægt að taka upp sýnidæmi á video og koma með heim. Held að það væri alveg hægt að taka upp 30 mín skemmtiefni til að skemmta sér yfir á djamminu heima.

Að lokum vil óska mömmu til hamingju með daginn í gær þann 17. febrúar. Jamm,,eina konan í mínu lífi um þessar mundir J. Því miður eru öll afkvæmin erlendis og gátu því ekki haldið upp á daginn með henni en hennar er sárt saknað hvort sem um er að ræða í Japan, Danmörku eða Eistlandi.