Nóg að gera hjá mér þessa daganna. Er núna öll kvöld að skrifa ritgerð sem ég átti að skila fyrir í jól upp á Bifröst og önn númer þrjú byrjaði í þessari viku, þannig að maður er strax í fyrstu viku farinn að dragast aftur úr. Reyndar ér ég búinn að skrifa slatta og vonast ég til að klára þetta um helgi eða í byrjun næstu viku. Vinnan gengur alveg ágætlega í kaupfélaginu. Maður er þessa daganna að standa í innheimtumálum og senda út hótunarbréf. Aldrei að vita nema maður sendi nokkur á vini sína, bara upp á gamanið. Til þess að bæta álagið þá er fótboltinn á sínum stað en ég tók að mér að þjálfa fjórða flokkinn fram að sumri, auk þess maður er að reyna að æfa sjálfur. Ég er búinn að sjá það að ég þarf að fara skipuleggja mig betur.
Fékk alveg risa flugu í hausinn um að vakna kl 7 og fara hlaupa á morgnanna. Veit ekki alveg hvernig ég höndla það en ég hef alltaf átt erfitt með að vakna til þess að fara hreyfa mig. Þegar ég var í Íþróttakennaraskólanum var ljúft að sofa sundtímana, frjálsíþróttatímana og leikfimina af sér. Hreinlega gat ekki vaknað til þess að fara í sport. Gallinn við mig er að ég er algjör kvöldmanneskja eða nátthrafn öllu heldur. Eftir því sem líður á kvöldið þá verð ég hressari.
Nóg að gerast í samfélaginu í dag sem hægt er að steypa um. Sérstaklega góð frammistaða landsliðsins í handbolta. Reyndar var mér nokkuð sama þegar þeir duttu út þar sem að þá gat maður hætt að pirra sig yfir þessu. Reyndar hefur Liverpool séð til þess að metnaður manns er orðinn álíka mikill og lítillar húsflugu að komast upp gluggann. Reyndar hef ég aldrei skilið það af hverju flugur labba alltaf upp glugga og detta svo á alltaf. Ná aldei upp. Af hverju fljúga þær ekki upp?.
Annað sem mér er ofarlega í huga er fögnuður Halldórs Ásgrímssonar yfir efnavopnafundi í Írak. Reyndar kom í ljós að þetta voru einhverjar tómar sinnepsflöskur frá grillveislu Hassan Ramallah sem hann hélt fyrir fjölskyldu sína fyrir 5 árum. EKki veit ég hversu oft Halldór hefur fagnað slíkum fundum en ljóst má vera að hugsar sig tvisvar um næst þegar hann fær fréttir af einhverjum uppgreftri af niðursuðudósum í Írak.
Það má alveg hafa gaman af þessu en þetta segir hins vegar að gífurleg pressar er á stjórnvöldum að eitthvað af efnavopnum finnist. Ef ekki þá hafa bölvaðir Bandaríkjamennirnir ráðist inní Írak gegn öllum alþjóðalögum. Það er mjög alvarlegt ef alþjóðalög eru ekki virt. Sjálfstæðismenn hér á landi líkt og aðrir bókstafstrúarmenn (republikanar) í Bandaríkjunum verja þetta með klóm og kjafti. Einar K. Guðfinnsson kom með heimskulegustu samlíkingu í þættinum Ísland í dag sem ég hef heyrt lengi varðandi réttlætingu við þessar aðgerðir Bandaríkjamanna. Hann sagði "eru ekki allir sammála um að Írak séu betur sett án Saddam Hussein?" jú auðvita...og hann bætti við "Það þurfti hernaðaraðgerðir til að koma honum frá og Nú er búið að koma honum frá og eru þá ekki allir sáttir?. Hvernig er hægt að láta svona út úr sér?...Ef manni líkar ekki við einhvern er þá hægt að koma honum frá með hernaði? Þarf ekki að fara að lögum?
Ef Bandaríkjamenn eru yfir öll lög hafnir þá er heimurinn í slæmum málum. Það sem að réttlætir hernað á önnur lönd er ógn af efna og kjarnavopnum. Engar sannanir lágu fyrir eign Íraka og var ráðist inn í landið á fölskum forsendum til þess að komast yfir olíu og verðmæti í Írak. Ekki gleyma því að Írak var eitt auðugasta ríki í heimi fyrir ekki svo löngu.
Hvað skyldi gerast ef Græningjar í Noregi kæmust til valda og þeim væri í nöp við Davíð Oddsson. Vildu komast yfir fiskimið og eyðileggja virkjanir hér á landi. Mættu Norðmenn þá ráðast á Ísland á þeim forsendum að þeir kynnu að finna efnavopn hérna?