Monday, February 23, 2004

Að neyta eða neita?

Það hefur fátt verið jafn mikið í umræðunni og stóra Mínusarmálið. Eflaust vita allir um hvað það snýst og ætla ég því ekki að fara rifja það upp hér en ég verð að játa að ég er hlynntur aðgerðum Samfés um að meina þeim að spila. Hins vegar fannst mér sú aðferð sem þeir buðu upp á til málamynda frekar fáranleg þar sem þeir ætluðu að fá hljómsveitina til þess að skrifa undir innihaldslausa pappíra sem byggðust á lygum.

Það er eitt að neyta eiturlyfja og vera rokkari. Margir telja þetta verði að fara saman enda ætla ég ekki að dæma um það enda er geri ég hvorugt. Mín vegna mega meðlimir Mínus neyta eiturlyfja en að vera dásama þau er annað mál. Sú ímynd sem þeir bjuggu til af Íslandi var hvorki landi né þjóð til mikils sóma. Af viðtalinu mætti dæma að hér væri allir á eiturlyfjum og íslenskt kvenfólk seldi sig fyrir eiturlyf á klósettum skemmtistaða. Þetta eitt og sér finnst verðskulda að hljómsveit spili ekki á tónleikum á vegum æskulýðssamtaka sem standa fyrir vímulausri æsku og skemmtun. Það að vera gera svona mikið mál úr þessu finnst mér með ólíkindum enda verða Mínus menn vart verkefnalausir þó þeir fái ekki að spila á þessum einu tónleikum.

Það að fá Mínus að spila á tónleikum Samfés undir þessum kringumstæðum væri eins og að fá dæmdan sterabolta til þess að sjá um halda fyrirlestur um heilbrigt líferni en hann gerði ekki annað en að dásama stera þegar hann væri utan fyrirlestra tíma. Annað sambærilegt dæmi væri George Bush að ávarpa samkomu friðarsamtaka eftir að hafa veitt viðtöku friðarverðlaunum Nóbels. Menn verða átta sig á að frægð fylgir ábyrgð. Menn verða fyrirmyndir og því miður eru þær misgóðar. Helsti hlustendahópur Mínus eru krakkar á viðkvæmum aldri þ.e. 14-18 ára. Þegar fyrirmyndirnar fara að dásama notkun eiturlyfja eru þær farnar að leiða aðdáandahóp sinn inná vafasöm svið. Þið getið rétt ímyndað ykkur ef Eiður Smári færi að hrósa notkun áfengis og munntóbaks eftir æfingar og leiki.

Ekki ætla ég að vera æsa mig á því hvort að menn neyti eiturlyfja en mín skoðun er að það eigi þeir að gera útaf fyrir sig. Það er vitað um skaðsemi slíkra efna og ég veit ekki um nokkurn mann sem hefur verið í neyslu sem státar sig af slíku líferni. Það er þó betra að menn neiti eiturlyfjum heldur en neyti þeirra.