Nýtt plan
Eitthvað held ég að líkaminn sé að hafna einhverjum líffærum eða skorti einhver mikilvæg næringarefni. Áfengis- og djamm bindindi mitt er farið að hafa einhver aukaverkandi áhrif sem mig ekki óraði fyrir. Þannig er að eftir áramót hef ég aðeins einu sinni farið á djammið og fengið mér í glas. Síðastliðinn laugardag ákvað ég að verðlauna sjálfan mig fyrir að vera edrú enn eina helgina og keypti mér bland í poka og Egils appelsín. Þetta maulaði ég fyrir framan sjónvarpið og tölvuna þar til að ég átti erfitt með að halda mér vakandi og var ég sofnaður um kl. 1.
Kl 3:54 gerðust atburðir sem ég hef aldrei upplifað áður nema undir ákveðnum áhrifum. Vaknaði ég í svitakófi, skjálfandi með hræðilegan magaverk. Helvítis hlaupkarlarnir í bland við sjóaralakkrísin voru farnir að renna saman í súrri magasýru. Afleiðingarnar voru gríðarlegur sársauki að á tímabili hélt ég að um hríðir eða túrverki væri að ræða. Átti ég ekki annað ráð en að staulast inná klósett og reyna koma efnisinnihaldinu út um sömu leið og það kom. Lá ég á fjórum fótum fram eftir þar sem að ekkert gekk að koma þessu af stað. Reyndi ég að láta ljótar hugsanir fljóta í gegnum hugan til þess að fá allt af stað, ekkert gekk. Það var ekki fyrr en að ljósbrot af Kolbrúnu Halldórsdóttur brá fyrir að smá skvetta náðist. Það var þó aðeins ein rúsínukúla sem skilaði sér, sem reyndar var ekki nema rúsínan eftir. Til að bæta gráu ofan á svart blossaði upp þessi súrsæti brjóstsviði í kjölfar uppgangsins sem gerði það að verkum 50% líkamans var nú orðið sýkt átakasvæði. Reyndar 68% þar sem ég er lágvaxinn með frekar stutta fættur.
Varð ég að láta mig hafa það að fara aftur upp í rúm með styrjaldarástand. Vaknaði ég hress daginn eftir en lærdómurinn er ótvíræður að borða aldrei bland í poka og appelsín rétt fyrir svefninn. Hef ég nú upplifað margar skemmtilegar þynnkur en eitt er víst að þær hafa ekki komist í hálfkvisti við þessa líðan sem ég upplifði aðfaranótt sunnudags. Það má því telja ansi líklegt að þetta bindindi verður endurskoðað á næstu dögum, enda alveg spurning um að fara njóta lífsins á ný, jamm maður er nú bara (þ)ungur einu sinni á ævinni.
Það minnir mig á það að ég var eitthvað að tala um að skipuleggja mig þar sem að ég er nú í fullu starfi, tveimur hlutastörfum, masternámi og að æfa fótbolta. Talaði ég um að fara vakna fyrr eða kl 7 til þess að fara æfa sjálfur. Gerði ég tvisvar sinnum heiðarlegar tilraunir. Þar sem mér þykir óhemju gott að sofa og þykir það miður skemmtilegt að vakna mistókst mér ætlunarverk mitt í bæði skiptin. Ástæðan er einföld því þegar ég stillti verkjaraklukkuna á 6:45 kveið mér svo fyrir því að vakna svo snemma að ég ætlaði aldrei að sofna. Þegar ég vaknaði svo eftir þriggja til fjögurra klukkutíma svefn kl 6:45 var ég svo þreyttur að ég snooz-aði til 7:40. Svona gekk þetta tvö morgna í röð. Það var því niðurstaða mín að æfa seinna yfir daginn og ég sniðugur þar sem ég tvinnaði saman æfingarnar mínar við æfingar sem ég þjálfa hjá 4. flokki. Skellti strákunum í 4. flokki í útihlaup tvisvar í viku þar sem að ég hleyp með þeim. Reyndar eitt vandamál þegar við erum að hlaupa að ég á það til að týnast í hópnum.