Mér brá heldur betur í brún þegar ég kom heim úr vinnunni í gær. Búið var að setja upp jólakrans á útidyrahurðina sem í raun er bara hið besta mál en þó þykir mér fórnarkostnaðurinn hafa verið ansi mikill. Eitthvað held ég að verktakinn ETG hafi eitthvað misreiknað sig í umhverfismati við þetta verk. Reyndar er það þannig með verktakann að hann er seinn til verks og þegar hann tekur til hendinni að þá þurfa framkvæmdir að vera heldur til stórtækar. Af þessu leiðir að frágangur eftir verklok er undantekningalaust mjög slæmur. Gott dæmi um það var þegar það átti að setja upp ofvaxinn spegill á stofuveginn að þá tók ég (undirverktakinn) það verk að mér að tilskipan verktakans. Fór ég niður í Byggingavörudeild og keypti þar nettan og sterkan krók sem hægt var að festa í vegginn. Þegar ég var búinn að bora og gera allt klárt fyrir að skrúfa krókinn í mætti verktakinn á svæðið. Að sjálfsögðu þurfti hann að valda í móinn og sagði ég upp verkinu á staðnum. Tók þá verktakinn til sinna ráða og fór sjálfur í Byggingavöruverslunina, eða það hélt ég. Þegar hann kom tilbaka var hann með þennan risa krók að ég velti fyrir mér hvaða sjóræningjagröf hana hafi grafið upp. Tók karlinn borvélina og hamaðist á veggnum uns komin var svo stór hola að fylla hefði mátt í hana með Ara Hauks. Festur var krókurinn og spegillinn var hífður á. Ekki ætla ég að leggja dóm á hvort hafi reynst gáfulegra að fara mína leið eða verktakans en pottþéttur er á, að spegillinn stæði ekki 20 cm frá vegnum að ofanverðu hefði ég fengið að ráða.
Minni útgáfan af króknum.
Guð forði okkur frá að kjöthnífurinn myndi glatast, karlinn myndi birtast höndina af Edda Klippikrumlu.
En aftur að blessaða kransinum. Kransinn fór upp og var vandlega festur með sterkasta laxagirni enda veitir ekki af í þeirri veðráttu sem hér ríkir í Beverly Hills hverfinu. En því miður er ekki nóg að henda kransinum upp eins og verktakinn komst að, rafmagn þurfti í kransinn til þess að fullkomna sköpunarverkið. Þar sem að enginn innstunga er í forstofunni reyndist nauðsynlegt að fá framlengingarsnúru og þar komum við ótrúlegustu lausn síðari tíma. Lausnin var CANTAT3 sæstrengur!!. Hef ég ekki séð jafn þvera og langa framlenginasnúru á ævi minni og það sem verra er að næsta innstunga er í mínu herbergi.
.
Lega sæstrengsins.
Á myndinni hér að ofan má sjá hvernig CANTAT3 sæstrengurinn liggur um landið en efst á myndinni má sjá Eyjólfsstaði þar jólakransinn skartar sínu fegursta um þessar mundir.
Ekki veit ég hversu lengi þessi kapall mun koma til með að liggja þarna en strax á fyrsta degi er hann farinn að angra mig. Það væri ef til vill ekki svo slæm hugmynd að benda honum á ljósleiðara og jafnvel væri hægt að fá Sturlu Böðvarsson til þess að opna leiðarann. Ennfremur hef ég bent verktakanum á að það sé ekki æskilegt að sofa við hlið 10.000 volta sæstrengs. Jákvæð áhrif strengsins eru þó þau að það hefur ekki verið meira stuð í þessu herbergi um árabil.