Þá er komið að því en nú er rétt rúmur sólarhringur þar til maður leggur af stað til Brussel. Búinn að fá dagskrána í hendurnar og er hún þétt skipuð en þó með góðu fríi inn á milli sem er nauðsynlegt til að kanna nætur- og skemmtanalíf Brussel.
Nú er ég að vinna hörðum höndum í að komast erlendis eftir áramót. Nenni ómögulega að hanga á skerinu, ekki það að þetta sé svo slæmt hérna en það er einhver þörf í mér að skoða heiminn. Hef tekið eftir því hjá mér að ég þoli mjög illa stöðnun eða ílengjast í sömu hlutunum. Það skýrir eflaust þá þær staðreyndir að ég hef lengst verið í sama starfi eitt ár, búið átta eða níu stöðum síðustu átta ár, aldrei verið í langtímasamböndum o.s.frv.. Held að ég þrífist best í breytingum og fjölbreyttu umhverfi. Reyndar rakst ég á áhugavert kínverskt spakmæli fyrir nokkrum árum sem ég hef ávallt haft í huga en það var á þessa leið: "Óttastu ei breytingar, óttastu það eitt að standa í stað".
Þá er kennaraverkfallinu senn að ljúka með málamiðlunartillögu sem vonandi verður samþykkt. Trúi ekki að kennarar ætli sér að hafna þeim kjörum sem eru í boði enda hefur framkoma samninganefndar hennar verið með hreinum ólíkindum. Mín reynsla í námi og vinnu er að í samningaviðræðum leggja menn upp með ákveðnar kröfur í upphafi sem þeir slá síðan aðeins af til að mæta hinum aðilanum á miðri leið. En að leggja upp með ófrávíkjanlegar kröfur í mikilvægustu málaflokkum er einungis hræsni og vanvirðing við hinn samningsaðilann. Með þessu hafa kennarar misst alla þá samúð og stuðning í samfélaginu sem þeir hafa þurft á að halda. Fyrir samfélagið hefur þetta verkfall haft mjög slæm áhrif á samfélagið og margar fjölskyldur en persónulega fyrir mig hefur þetta haft frekar jákvæð en neikvæð áhrif á mig. Meðan ég er í vinnunni milli kl 8 - 16:30 þá verð ég ekkert var við hvað krakkar eru að gera, hvort sem þeir eru í skólanum eða heima hjá sér. Kosturinn við þetta verkfall er að ég er mun fljótari í vinnuna á morgnanna þar sem umferðin á Borgarbrautinni er miklu léttari kl 8 á morgnanna.
Samt sem áður vil ég taka það fram að ég sem íþróttakennari að mennt er hlynntur því að kennarar fái góð laun en samt sem áður verða kennarar og aðrir að borga á laun í samræmi við vinnu. Kennarar hafa yfirleitt lokið vinnudegi kl. 14 á daginn. Þeir fá fleiri frídaga en nokkur önnur starfstétt á Íslandi. Þetta eru fríðindi sem verður að horfa til. Persónulega myndi ég vilja stokka algjörlega upp í þessu skólakerfi, láta kennara vinna frá 8-16 eða 17. Láta krakka sitja til 16 í skólum alla daga. Hafa íþróttakennslu fyrir alla krakka alla daga. Leggja mun meiri áherslu á raungreinar og þyngja námsefni í öllum aldurshópum. Þetta þýðir meiri kröfur til allra kennara, nemenda og foreldra en skilar sér í betur upplýstu samfélagi. Þegar þetta er raunveruleiki tel ég kröfu kennara um að fá há laun fullkomlega réttmæt. Eins og staðan er í dag tel ég kröfur kennarar óraunhæfar miðað við það starf sem þeir skila í dag.
Mér hreinlega blöskrar þær auglýsingar sem birtust með kennurum sem sögðust fá 130.000 krónur útborgað á mánuði. NOTA BENE þarna er verið að tala um grunnlaun. Þegar ég hóf kennslu á fyrsta ári hafði ég um 180.000 útborgað. Vissulega lág grunnlaun en þegar allt annað var tekið inní hækkuðu laun mínum um 50-70.000 krónur á mán. Þannig blöskrar mér þegar kennarar sem eiga að vera fyrirmyndir í samfélaginu koma fram með villandi upplýsingar til að öðlast samúð. Teljið upp frídaga ykkar og þau hlunnindi sem þið fáið sem aðrir á vinnumarkaðnum fá ekki. Að lokum er mín skoðun sú ef að fólk er ekki ánægt með laun sín þá á það einfaldlega að finna sér eitthvað annað að gera.
Kveð í bili er farinn til Brussel!!