Tuesday, October 31, 2006

París að baki

,,,hvað getur maður sagt eftir svona ferð annað en París er geggjuð borg. Ég skil núna af hverju svo margir nefna París sem uppáhaldsborg sína. Þessi borg hefur hreinlega allt sem þú leitar að, fjölbreytileika, fegurð, kyrrð, sögu og rómantík. Við Maj-Britt hittumst uppá hótelherbergi á föstudeginum þar sem byrjað var að skála í kampavíni fyrir komandi helgi enda bæði búin að bíða lengi eftir þessari helgi.

Fórum út að borða við fræga götu sem ég man ekki nafnið á :S. Verða að játa að það voru mestu vonbrigði ferðarinnar. Pantaði mér önd sem kostaði hátt í 3000 krónur og þegar maturinn kom á borðið fékk ég tvær þunnar sneiðar af andapaté, þrjá dropa af einhverri brúnni sósu og berjasultu. Langaði að fara gráta þarna við borðið, en MajþBritt gaf mér bita af sínum mat þannig að ég fór ekki alveg jafn svangur út af staðnum eins og ég kom inn á hann. Eftir matinn fórum við að skoða Sigurbogann og fórum þar undir en þaðan sáum við Eiffel turninn og ákváðum að taka lestina þangað. Vorum kominn þangað um hálf ellefu leytið um kvöldið sem þýddi að það var nánast engin röð og skelltum við okkur beint á toppinn, þrátt fyrir að sumum fannst nóg um hæðina á annarri hæð. Skal alveg játa að lyftuferðin upp á toppinn tók alveg þokkalega á jafnvægisskynið og kjarkinn. Lyftuferðin var þó alveg þess virði þegar maður horfði yfir París. Þarna sá maður upplýsta minnisvarða og byggingar auk þess sem ljósin frá strætum Parísar. Geggjað útsýni, geðveikt rómantískt, geggjað móment......damn, ætlaði ekki að láta þetta hljóma væmið en svona var þetta bara. Væri vissulega meira mascular að láta þetta hljóma,,"fórum upp Eiffel turnin sem er nú bara að bara eins og Hallgrímskirkjuturn, ekkert þar að sjá nema einhverjar gamlar byggingar og sveitta túrista".

Laugardaginn var mjög busy. Áttum pantað borð á veitingastað í Centre Pompidou safninu, sem reyndist einn af hápunktum ferðarinnar. Geggjaður matur, á geggjuðum stað og frábær þjónusta. Fæ enn vatn í munninn þegar ég hugsa matinn. Pantaði mér önd sem reyndist vera öndin sem ég hafði ætlað að fá mér kvöldið áður. Fengum okkur síðan súkkulaðiköku var ein sú besta sem ég hef smakkað. Mæli með að fólk á leið til Parísar panti sér borð á þessum stað með góðum fyrirvara. Síðan var haldið í skoðunarferðir að Notra Dame og þaðan fórum við á Musée du Louvre þar sem við sáum meðal Monu Lisu málverkið. Reyndar að safnið svo HUGE að það er ekki nokkur leið að skoða það allt í einni tilraun. Fórum síðan í verslunargötu þar sem við löbbuðum um en sumir áttu þó eitthvað orðið erfitt með gang á þessum tímapunkti, ætla ekkert að fara nánar út í það :). Um kvöldmatarleytið fórum við í Latínuhverfið þar sem við fengum okkur mjög góðan indverskan mat. Allt fullt af veitingastöðum þar og börum þar sem allt iðar af lífi. Fengum okkur síðan kokteila og bjóra áður en við héldum heim á leið á litlum bar þar sem að þjónninn tók öll völd í sínar hendur. Spilaði tónlistina, stjórnaði skjávarpanum og því hver átti að sitja hvar.

Fengum auka klukkutíma á sunnudeginum þar sem að Evrópubúar færðu klukkuna sína aftur um einn klukkutíma þann dag. Byrjuðum á því að fara skoða Sacre Coeur kirkjuna en fórum þaðan aftur niðri Latínu hverfi þar sem við borðuðum Crépes á litlu kósý kaffihúsi. Fórum þaðan inná hótelherbergi og lögðum okkur aðeins áður en við fórum og borðuðum kvöldmat á Buddha-Bar. Fengum mjög góðan mat í skemmtilegu umhverfi. Þjónustan í veitingasalnum var góð en það var samt pínufyndið að við vorum búin að kaupa mat fyrir 15.000 krónur og gefa c.a. 1000 krónur í tips að þegar Maj-Britt ætlaði að sækja kápuna sína í fatageymsluna var hún rukkuð um 1.50 evru. Kom það nokkuð flatt upp á okkur og áttum við aðeins 1.40 evru í klinki. Voru þjónustustúlkurnar í fatageymslunni ansi efins og horfðu á okkur eins og einhverja fátæklinga og ætluðu ekki að láta okkur fá kápuna. Eftir mikið krafs í veskinu fundust 2 evrur í veskinu. Kom þá á daginn að þær áttu ekki skiptimynt og með trega létu þær okkur fá kápuna og tóku 1.40 evrurnar. Segja má að endaspretturinn á ferðinni hafi reynst erfiðastur þegar þar sem ég fékk heiftarlega í magann og svaf ekki dúr alla nóttina eða allt til klukkan 5:30 þegar ég þurfti að fara upp á flugvöll. Þá tók ekki betra við að vesalingurinn í Lobbýinu kunni ekki á síma né að panta leigubíl, sem gerði það að verkum að ég þurfti að fara út og reyna finn leigubíl sem tókst þó eftir nokkuð labb og stress. Var kominn síðan í vinnuna kl 10:30 þreyttur og slappur.

Þrátt fyrir smá hrakfarir í lokin verð ég að segja að þessi ferð var ein sú besta sem ég hef farið og ég mæli hiklaust með að fólk fari og skoði París.