Thursday, November 02, 2006
Besta Deja Vu!!!

Í samfelld átta ár eða frá 20-28 ára aldri klippti mig aðeins einn maður, Haukur Rakari. Það var einn af mínum verstu dögum þegar ég frétti að hann hefði lokað stofu sinni eftir margra áratuga starf. Síðan þá hef ég farið á milli hárgreiðslustofa og þrátt fyrir góða þjónustu þá hef ég aldrei upplifað sömu stemninguna sem ég upplifði í stólnum hjá Hauki. Hjá hárgreiðslustofum þarf maður að panta tíma með nokkra daga fyrirvara, klippingin tekur rúman hálftíma og maður borgar ekki minna en 2500 krónur fyrir þjónustuna þrátt fyrir að hárunum fari alltaf fækkandi.
Hjá Hauki var þetta einfalt, maður bara settist beint í sætið, klippingin tók 20 mínútur, óvæntar uppákomur litu dagsins ljós og maður fékk að heyra skemmtilegar sögur og maður borgaði rétt rúmlega 1000 krónur.

Síðustu þrjú árin hefur það verið álíka kvöð fyrir mig að fara í klippingu eins og að fara til tannlæknis. Ekkert óvænt, ekkert action, engar sögur, heldur innihaldslausar samræður um daginn og veginn.

Svo gerðist það á miðvikudaginn að ég átti leið í videoleiguna þegar ég tók eftir lítilli rakarstofu. Á þessari stundu var eins og hlið himnaríkis hafði birst mér þar sem að ljósin frá stofunni lýstu upp dimma götuna. Ég gekk dáleiddur yfir götuna og horfði á fegurðina sem blasti við mér. Þarna stóð ég eins og lítill smástrákur með vatn í munninum fyrir utan sælgætisbúð. Fyrir innan voru tveir gamlir rakarastólar, myndir af karlmannshárfyrirsætum frá 1980, innrömmuð starfsviðurkenning ásamt gömlum fjölskyldumyndum. Haukurinn sjálfur var ekki af verri endanum. Virðulegur maður í kringum sextugt með tignarlegt yfirvaraskegg, klæddur snyrtilegum fötum undir rakarasloppnum.

Hugsaði ég mig ekki tvisvar um að þarna skildi ég láta klippa mig og ekki skemmdi fyrir að á glugganum stóð hann væri International. Kom reyndar á daginn að hann talaði enga ensku. Settist ég beint í stólinn hjá honum þar sem kúninn á undan hafði fengið sínar þarfir uppfylltar í sömu andrá og ég steig inn í stofuna. Hann virtist mjög ánægður. Byrjaði Haukurinn að á að setja rafmagnsvélina af stað og byrjaði að reita á fullu. Skal alveg játa að ég var smá efins í fyrstu á handbragðið þar sem hárið þeyttist í allar áttir líkt og Eddi "klippikrumla" (Edward Scissorhands) væri að verki. Með tímanum fór sem meistaraverkið að taka á sig mynd og á um það bil 20 mínutum var það fullklárað. Þegar ég stóð upp bustaði hann af mér hárin og spurði hvaðan ég væri. Þrátt fyrir að maður hafi ekki fengið jafn skemmtilegar sögur og hjá Hauki þá stemmningin að sitja í stólnum á við góða sögu. Borgaði ég glaður 1200 krónur fyrir klippinguna. Um leið og ég yfirgaf rakarstofuna, klappaði rakarinn mér á bakið og kvaddi með bros á vör. Ég kvaddi og gekk með sælubros út í skammdegið...
Ekki síst vegna þess að ég tók eftir því að hann gleymdi að stytta bartana öðrum meginn :)