Monday, February 17, 2003

Að vera Borgnesingur

Það fór nú svo að hlutskipti mitt í lífinu var að verða Borgnesingur og veldur það mér oft á tíðum leiða er að búa í Borgarnesi. Borgarnes er bær þar sem gerist ekki neitt. Ég vil samt taka það fram að ég vil frekar vera Borgnesingur en nokkuð annað. Hugsa sér að þurfa vera Keflvíkingur eða frá Selfossi. Það er eins og að vera með afbrotadóm á bakinu. Hugsa sér fyrir þetta grey fólk að geta ekki skammlaust sagt hvaðan það er.

Snúum okkur að Borgarnesi. Ég held að ég sé búinn að finna skýringuna af hverju mér þykir svona hrikalega gott að sofa. Draumar mínir gefa mér fjölbreytileikan í líf mitt en meðan ég vaki er líf mitt “Groundhog day”. Að hugsa sér að vakna á morgnanna og vita nákvæmlega hvernig dagurinn verður. Í Borgarnesi breytir maður ekki rútínu dagsins. Í rauninni skiptir engu máli hvaða dagur er í Borgarnesi þar sem að allir dagar eru eins eftir að Kaupfélagið fór að hafa opið á sunnudögum. Fólk í Borgarnesi fer ekki út að skemmta sér, þar sem því er illa við tilbreytingu og í rauninni þá þekkist orðið tilbreyting ekki í Borgarnesi. Ef að maður fer á skemmtistaði bæjarins hittir maður alltaf sama fólkið en það er vegna þess að það ratar ekki heim til sín.

Reyndar fara Borgnesingar tvisvar sinnum út úr húsi á ári til þess að skemmta sér en það er þegar Geirmundur Valtýrsson kemur í bæjinn að spila á hótelinu. “Nú er ég léttur og orðinn….” syngur Geiri og Borgnesingar tryllast úr fögnuði.

Ég er búinn að finna ástæðuna á þessu slæma gengi mínu í kvennamálum undanfarið sem líkja má við gengi Liverpool þar sem ekkert gengur upp (bókstaflega). Í Borgarnesi er ekki stundað kynlíf. Þetta sést best á íbúatölum en árið 1990 voru Borgnesingar um 1750, í dag eru þeir um 1750. Þetta þarf ekki að koma á óvart þar sem að kynlíf flokkast undir tilbreytingu.

Uppáhalds samkomustaður barna er Hyrnan á meðan að eldra fólkið kemur saman í Kaupfélaginu. Í Kaupfélaginu er hægt að gera sér ýmislegt til dundurs, eins og að fara í apótekið, ÁTVR eða jafnvel kíkt til Hauk rakara. Reyndar kíki ég alltaf til hans á nokkra mánaða fresti til þess að fá alvöru herraklippingu.

Kjaftasögur halda fólki gangandi í Borgarnesi og oft á tíðum heyrir maður ansi skemmtilegar sögur af sjálfum sér sem að maður hafði ekki hugmynd um. Bestar finnst mér sögurnar um framhjáhöldin í bænum, sem að líkja má við Batman myndirnar. Það að hugsa sér tvo Borgnesinga stunda kynlíf er álíka trúverðugt og Batman væri til.

Það má vel vera að það sé mjög gott fyrir fjölskyldufólk að búa í Borgarnesi þar sem að börnin geta alist upp í vernduðu og óspilltu umhverfi. En að vera 27 ára piparsveinn er ekki mjög gott. Þetta er ekkert ósvipað og að vera einbúi í afdölum. Hvað gerist fyrir einbúann þegar að bíll rennur í hlað? Jú,,hjartað tekur aukaslag. Hvað gerist fyrir piparsveininn í Borgarnesi þegar það kemur falleg stúlka í bæjinn?,,,jú, það sama og fyrir einbúann. Reyndar er ég þessi týpíski Borgneski piparsveinn þ.e.a.s. ég ek um á flottum sportbíl, ég á massa sólglerugu og ég fer í ræktina 12 daga vikunnar (þarf engar vikur eða mánuði í Borgarnesi þar sem að allir dagar eru eins). Reyndar er piparsveinamarkaðurinn ekki stór í Borgarnesi og samkeppnin er í rauninni ekki mikil, en gallinn er að það er engin stelpa á lausu í Borgarnesi. Já, því miður er ekki nóg fyrir mann að vera 190 cm, massaður með 0,3% fitumagn, hvítar og beinar tennur, sítt hár niður axlir og með fallegt andlit eins og Geir H. Haarde.

Það sem mér þykir verst við Borgarnes er þessi sama rútína sem gengur aftur og aftur. Það flokkast undir stórfréttir meðal fólks ef að einhver kaupir sér nýjan bíl, setur upp nýjar gardínur eða er að slá sér upp. Veistu hvað ég var að heyra?,,er algeng setning í Borgarnesi. Þegar fólk vill gera sé mikinn dagamun þá klórar það sér í rassinum með vinstri hönd í stað þeirrar hægri. Sumir ganga jafnvel svo langt að klóra sér með báðum í einu.

“Á morgun er kominn nýr dagur” segir einhversstaðar og á morgun ætla ég að gera eitthvað stórkostlegt,,,,eitthvað alveg nýtt,,eitthvað geggjað…. og ef þú býrð í Borgarnesi þá verður þú örugglega búin að heyra af því í lok dags.