Wednesday, January 15, 2003

Að vera á réttum stað á réttum tíma

Ég varð fyrir því láni í gærkvöldi að rekast á tímaritið Vikuna heima hjá mér og þar sem ég var einmitt á leið á klósettið var alveg upplagt að grípa það með. Þar vakti athygli mína stjörnuspá mín fyrir þessa viku en hún er eftirfarandi:

Bogmaður
"Það verður gaman hjá þér þessa vikuna. Byrjaðu gamanið með því að strengja þess heit að hér eftir skulir þí alltaf vera vel til fara og hugsa vel um þinn innri og ytri mann. Þú nýtur þín í góðum félagsskap og ólofaðir Bogmenn gætu kynnst maka sínum ef þeir verða staddir á réttum stað á réttum tíma. Gættu þess að eyða ekki of miklum peningum". heimild Vikan.

Til þess að gera eitthvað í málunum fór ég á útsölur í Reykjavík og verslaði þar föt fyrir um 30.000 krónur,,ekki slæmt það og til þess að eyða ekki of miklum peningum þá borgaði ég það allt á kreditkortið mitt. Þannig er ég búinn að tryggja það að ég sé vel til fara. Fyrir viku síðan hófst undirbúningstímabilið í fótboltanum þannig að maður hefur verið úti að hlaupa og lyfta lóðum síðustu daga og þannig hef ég verið að rækta líkama og sál. Hugsa sem sagt vel um minn innri og ytri mann. Síðan kemur að því sem ég á eftir að gera en það er að vera réttur maður á réttum stað til þess að finna maka minn. Einhvern veginn held ég að þessi stjörnuspá taki ekki tillit til fólks sem býr úti á landi og allra síst í Borgarnesi. Ég fór uppá Bifröst í gær, í íþróttahúsið, á rúntinn, í Shellskálan og Hyrnuna en þar var engin stúlka. Hvar er rétti staðurinn?? Ég hef ákveðið eyða restinni af vikunni í Kaupfélaginu og fylgjast með því hvort ég sjái maka minn ganga þar inn. Ég ætla fá mér stól og sitja fyrir utan hjá Hauki rakara, með kaffibolla í hönd og þiggja góð ráð hjá honum. Ekki skemmir fyrir að stutt er að sækja sterkari vökva ef maður þarf að safna í sig einhverjum kjarki ef maki minn birtist. Ekki það að ég sé orðinn eitthvað örvætingarfullur um að ganga ekki út en svona tækifærum má maður ekki klúðra því að það gæti orðið langt þangað til að ólofaðir Bogmenn eiga aftur tækifæri á að kynnast maka sínum.