Monday, April 28, 2003

Framsóknarflokkurinn

Síðustu dagar hafa flogið án þess að maður hefur getað komið einhverji vitleysu inn á bloggið. Reyndar hef ég nú þjáðst af pínulítilli ritstíflu þar sem að engin þung málefni hafa legið mér á hjarta. Maður er þessa daganna að í lokaritgerðarvinnu og það stefnir allt eins og staðan er í dag að maður nái að skila á réttum tíma. Hins vegar eru tvö önnur fög að angra mann í miðri vinnu en það er upplýsingafræði og viðskiptasiðferði, sem reyndar má segja að sé hardcore heimspeki.

Báðir þessir áfangar hafa gjörsamlega floppað, ekki síst vegna þess að maður hefur ekki haft neinn tíma til þess að kynna sér lesefnið fyrir tímana og að kennararnir eru engan vegin í takt við þá kennsluhætti sem tíðkast á Bifröst. Ég ætla ekki að fara tjá mig meira um þetta hér þar sem að fæst orð bera minnsta ábyrgð.

Kosningabaráttan hefur aðeins náð athygli minni og verð ég að segja að ég hafi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með hana. Engin flokkur hefur náð að heilla mig þar sem að stefnuskrár þeirra eru keimlíkar og auglýsingaherferðir þeirra hundleiðinlegar og ófrumlegar.

Framsóknarflokkurinn: Hefur lagt upp í þessa kosningar með því að stilla Halldóri Ásgrímssyni sem andlit flokksins út á við. Halldór er traustur og góður stjórnmálamaður en því miður heillar hann ekki almenning. Allar nýjar hugmyndir framsóknarflokksins hljóma sem gamlar þar sem hann er svo lengi að koma þeim frá sér. Framvarðarlið flokksins myndi líta betur út í steingervingasafni þjóðminjasafnsins heldur en við ráðherraborðið. Framsóknarflokkurinn er ekki ósvipaður og ein stór ætt þ.e.a.s. maður gengur ekki í flokkinn heldur fæðist maður inní hann. Kjósendur framsóknarflokksins er yfirleitt gamlir bændur en þar sem að bændastéttinni fer fækkandi hefur fylgið við flokkinn farið sömu leið. Ekki er langt í að flokkurinn deyji út þar sem að fæðingartíðni á Íslandi hefur lækkað.
Auglýsingaherferð flokksins er þokkalega frumleg en ófyndin, sem er frekar leiðinleg því hún á að vera fyndin. Þeir hafa reynt að byggja upp húmor í auglýsingum sínum en því miður er Framsóknarmönnum ekki gefin sú guðgjöf að vera fyndnir. Þeir eru með alvarleg bændagen í æðum. Þeirra hlutverk er ekki að segja brandara heldur að halda sveitum landsins gangandi. Þegar bændur segja brandara er það til að létta geðið í þunglyndum beljum sem hafa verið inní fjósi heilan vetur.
Hallgrímur Helgson orðar spillinguna í kringum flokkinn á eftirfarandi hátt " Íslensk spilling er ekki gerð af kænsku eða illum hug. Framsóknarspillingin verður ekki til í ábataskyni, heldur af sveitamennsku, naíviteti, stundum tómri heimsku. Hún er gerð af hugsunarlausu sakleysi: Tómum barnaskap. Þess
vegna standa spilltir herrar landsins alltaf á gati þegar komið er upp um þá. Þess vegna setja þeir alltaf um sakleysissvipinn og segja: Það hvarflaði nú bara aldrei að mér að það væri eitthvað rangt við þetta! Og þess vegna fyrirgefum við þeim alltaf
"

Reyndar verð ég að hrósa framsóknarflokknum fyrir það að hafa staðið sig vel í mörgum málefnum. Halldór Ásgrímsson hefur að mínu mati staðið sig vel í Evrópumálefnum þjóðarinnar þar en því miður hefur hann ekki fengið náð fyrir eyrum Davíð Oddsonar Fuhrer Sjálfstæðisflokksins. Jón Kristjánsson leysti Sif af hólmi í virkjunarmálunum og leysti það mál með fullkominni sátt að meira að segja Steingrímur J. hélt kjafti (í bili). Páll Pétursson gerði ekki neitt í þau ár sem hann sat í félagsmálaráðuneytinu og þar af leiðandi klúðraði hann engu. Ef að fólk er fylgjandi sitjandi ríkisstjórn og vill ljá henni stuðning sinn myndi ég ráðleggja því að kjósa Framsóknarflokkinn frekar en Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurinn hefur tekið af skarið varðandi aðgerðir í umdeildum málum og séð um megnið framkvæmdum gerðar hafa verið undanfarin ár. Flokkurinn getur gengið nokkuð sáttur og með hreina samvisku til þessara kosninga eftir að hafa setið í stjórn í 8 ár.

Kannski maður kjósi Framsóknarflokkinn,,,,veit ekki,,,,á morgun ætla ég að spá í Sjálfstæðisflokkinn....