Ég ligg hér enn upp í rúmi í náttsloppnum og klukkan að ganga þrjú. Ég hef reyndar góða ástæðu fyrir því, þar sem að Búnaðarbankamótið tók frá mér alla orku um helgina. Mótið gekk býsna vel þrátt fyrir að veðrið hefði mátt vera betra. Rigningin sá til þess að maður er pínu stíflaður og að æfingasvæðið verður vart notað í bráð. Þegar þessari helgi er lokið er stór hluti sumarsins að baki í þjálfuninni þar sem að við taka reglulegir leikir í Íslandsmótinu.
Ég mikið verður spurður að því hvort að ég sé kominn á fast þar sem að ég hef ekkert verið að blogga upp á síðkastið. Svarið er Nein. Það er ég ekki og stefni ekki á þar sem að ég hef hreinlega ekki tíma til þess. Þar sem ég er ekki enn kominn með vinnu stefnir hugur minn enn út í lok ágúst. Ég veit að Skorri er að fara flytja til Ungverjalands og hef ég hug á að kíkja til hans. Þaðan myndi leiðin liggja væntanlega til Þýskalands þar sem ég hef ákveðnar fyrirætlanir í huga sem ég ætla ekki að greina frá. Að sjálfsögðu myndi maður síðan skella sér til Danmerkur til Önnu systur og lifa á henni í smá tíma bara til þess að ergja hana.
Satt best að segja veit ég ekkert hvað bíður mín eftir mánaðarmótin ágúst-sept. Eitt er 99% öruggt að ég ætla mér ekki að vera í Borgarnesi áfram. Til þess að svo yrði þyrti eitthvað verulega spennandi að freista mín sem hefur ekki skeð ansi lengi. Ekki einu sinni tvöföldun Hyrnunar eða ný byggingavörudeild er nóg. Að vera í Borgarnesi er eins og að sitja á umferðarmiðstöð og bíða eftir rútu sem ekki kemur. Ekkert gerist nema með að tíminn líður og maður eldist en maður heldur samt að eitthvað gerist í framtíðinni, líkt og maðurinn á umferðastöðinni sem á von á rútunni sem aldrei birtist.
Mín skoðun er sú að maður á að vera njóta þess að vera laus og liðugur án allra skuldbindinga eins lengi og maður getur. Meðalævi karlmanns á Íslandi er um 76 ár.
Fyrstu fimmtán árin hefur hann enga kynhvöt eða aldur til þess að skemmta sér á nokkurn hátt. Flestir binda sig og eru komnir með konu og börn upp úr 25 ára aldri. Eftir það taka við íbúðarkaup, leikskólagjöld, mikil yfirvinna, uppeldisvinna o.s.frv. Eftir fimmtugsaldur má segja að lífið fari að hefjast á ný þegar börnin eru farin að heiman. En hver hefur gaman af kerlingunni sinni eftir 25-30 ár í sambúð? Fólk bregst við með ýmsum hætti, það fær sér hund, horfir á meira á sjónvarp, íhugar makaskipti, lærir að spila og ættarmót eða fermingar verða spennandi. Það versta við allt saman er að kynhvötin hefur horfið á þessum 25 árum. Af þessu má draga þá ályktun að eftir standa um það bil 10 góð ár í lífi manns þar sem maður getur gert allt sem manni sínist. Vissulega er það persónubundið þar sem að sumir binda sig um tvítugt sem þýðir að einungis á sá aðili um 5 góð ár í lífi sínu. Þó hafa sumir keypt sér frelsið á en oft dýru verði u.þ.b. 13-15 þúsund krónur á mánuði, jafnvel íeinhverjum tilvikum meira. Mitt markmið er að lengja góðu árin mín um 15-20 ár. Hvernig þeirri útfærslu verður hátt hef ég ekki tekið séð fyrir endan á.