Friday, October 03, 2003


Ingvi iðjuleysingi er iðjuleysingi af guðs náð

Dagur í lífi iðjuleysingja

Það tók við áhugaverður tími þegar ég kom heim. Þegar ég var búinn að ná mér niður á jörðina og þynnkan runnin af mér áttaði ég mig á því þar sem ég lá í rúminu mínu heima hjá mömmu og pabba að ég hefði ekkert fyrir stafni. Fyrst greip um sig ofsagleði þar sem ég sá fram á ótakmarkaða CM spilamennsku næstu mánuði og var tölvunni startað. Fyrir þá sem ekki vita er CM knattspyrnuleikur sem kemur í staðinn fyrir allt annað. Maður tekur við knattspyrnuliði sem maður reynir að gera að stórveldi. Þennan mánudagsmorgunn tók ég við liði Duisburg í Þýskalandi. Allt gekk vel og ég náði liðinu strax upp í úrvalsdeild á fyrsta tímabili, áfram hélt velgengin alveg inní meistaradeildina. Síðan fór að síga á ógæfuhliðina þegar væntingar stjórnarinnar fóru að aukast. Í djúpri CM vímu rankaði ég ekki við mér fyrr en á miðvikudaginn þegar stjórn Duisburg sagði mér upp störfum. Þennan miðvikudagsmorgunn stóð ég skyndilega uppi atvinnulaus í CM og í raunveruleikanum. Þetta var vissulega gríðarlegt áfall þar sem mér hefur aldrei verið sagt upp störfum áður. Ég fór niðrá verkalýðsskrifstofu og gerði þeim grein fyrir stöðu mála. Ekki var ég sáttur við framkomu þeirra þar sem að þeir neituðu að blanda sér í deilu mína við stjórnendur Duisburg og bentu mér á að fara leita mér að vinnu.

Næsta skref hjá mér var að leita í blöðum og tímaritum af áhugaverðum atvinnuauglýsingum. Áhugaverðasta auglýsingin var frá Landsbankanum. Fór ég þangað með ferilsrkána mína. Leist þeim vel á hana og ákvaðu þeir að taka mig til reynslu. Átti ég von á litlu skrifborði og tölvu, en viti menn á borðinu var flaska af vodka. Var ég þarna kominn í reynslustarf Djammarans í námsmannaþjónustunni og átti ég að byrja strax og mæta aftur kl. 9:00 daginn eftir. Til að gera langa sögu stutta reyndist ég ekki hæfur í starfið. Það varð strax ljóst þegar ég mætti ekki daginn eftir vegna þynnku. Hvaða Djammari má eiga við þá veikleika að stríða að vera þunnur. Það er eins og að ráða blindann bílstjóra á rútuna.

Fimmtudagurinn er lýsandi dagur í lífi iðjuleysingja. Ég vaknaði 11:30 um morguninn og fékk mér morgunmatinn, eða svona sameiginlegur morgun- og hádegisverður. Þetta er engin tilviljun að iðjuleysingjar geri þetta því þarna má spara heila máltíð, sem er mikilvægt þegar peningainnstreymi er í lágmarki. Kl. 13:00 ákvað ég að lesa moggan, en samt ekki pappírsmoggann heldur net moggan þar sem maður losnar við fyrirhöfnina að flétta. Þegar ég hafði farið þennan venjulega rúnt á netinu, voru tveir kostir í stöðinni, taka smá lúr eftir málsverðinn eða spila CM. CM varð fyrir valinu enda runnin af mér reiðin eftir deilurnar við Duisburg. Spilaði ég til að verða 17:00. Þá fór ég að kíkja á sjónvarpið. á Þessum tíma er ekki neitt nema barnatími og leiðinlegar sápuóperur. Vissulega hefur maður tíma til þess að setja sig inní þær núna en ég vil ekki koma mér inní þetta ef að skyldi vera að maður færi að gera eitthvað, þá er svo vont að missa úr. Á þessari stundu uppgvötvaði ég leyndardóma textavarpsins. Nú loksins skil ég hvað faðir minn hefur uppgvötvað. Vissuð þið að maður getur séð hvernig veður er á öllum heiðum landsins, hversu margir bílar hafa keyrt yfir Laxárdalsheiði, hvernig gengið er í japan, vaxtastig í Kauphöllinni og meira segja eru skipafréttir á síðunni. Þarna er allt. Reyndar var það bara tilviljun að ég rambaði inn á þessa síðu þar sem textavarpstakkinn er afmáður af fjarstýringunni og virkar heldur ekki alltaf eftir ofnotkun. Þarna sat ég fastur næsta klukkutímann og fyrir mér opnaðist nýr heimur. Hvernig væri að opna sjónvarpsstöð sem væri bara textavarp? Maður getur hvort eð er ekki horft á neitt annað á meðan og ég þekki einstaklinga sem eyða 10 klukkutímum fyrir framan sjónvarp á viku, þar af 80% af þeim tíma á textavarpinu. Meira að segja er hægt að sjá hvernig staðan í íshokkýleikjum í Finnlandi er.
Um 18:00 byrjaði Seinfeld, svo fréttir o.s.frv. og þarna sat ég til að verða 22:00, enda margir góðir þættir á fimmtudögum. Þá var tímabært að skella sér á eina æfingu sem lauk kl. 23:00. Eftir erfiðan dag og annasamann dag var ég orðinn örmagna og þráði svefn. Samt var smá orka fyrir CM sem lauk reyndar ekki fyrr en um 2:30 og 10 tíma svefn framundan.

Þá er kannski komið að óvæntu fréttunum. Þessa nótt dreymdi mig skrítinn draum. Ég var að fá starf hjá einhverri ráðningastofu og vinnutíminn var frá 8-5. Fyrir mann sem varla hefur unnið handtak alla sína ævi var þetta ekki góður draumur, öllu heldur martröð. Þennan morgunn hringdi ég upp á Bifröst og bað um að fá að komast í Masternám. Viti menn stjórnendur skólans gáfu mér grænt ljós og nú er í farinn í að vinna upp það sem ég hef misst úr. Já ég er kominn aftur í skóla :)