Saturday, May 22, 2004

Ég var búinn að gleyma af hverju Ingvi Hrafn fór alltaf svona í taugarnar á mér. En þegar ég heyrði ræðu hans í útvarpi sögu rifjaðist það allt upp. Ekki veit ég hvort að hann hafi verið með spegil fyrir framan sig þegar hann urðaði yfir forseta Íslands til þess að finna þau lýsingarorð sem hann notaði.

Reyndar má þakka Ingva fyrir það með þessari ræðu sinni að með þessu sýndi hann fram á hversu tilgangslaust þetta blessaða geðþóttafrumvarp í rauninni er. Það eina sem á eftir að gerast við þetta frumvarp er það koma aðrir eigendur að blöðunum, starfsöryggi fólks er í hættu og Davíð getur sofið rólegur. Sem sagt frumvarpið er bara sett gegn örfáum einstaklingum sem Davíð líkar ekki við. Í stað þess að tryggja fjölmiðlafólki vernd gagnvart eigendum og öruggt starfsumhverfi er reynt að setja starföryggi hundruða manna í hættu. Ingvi Hrafn sýndi þarna að það er nákvæmlega sama hvað fjölmiðlar birta eða láta frá sér fara hverjir sem eigendurnir eru.

Það verður gaman að fylgjast með hvað mun gerast á næstu dögum en nánast öruggt er að fjölmiðlafrumvarpið verður samþykkt þrátt fyrir að mikill meirihluti þjóðarinnar sé andvígur því. Boltinn er hjá Forsetanum núna og hef ég ákveðið ef Ólafur samþykkir þessi lög mun hann ekki fá mitt atkvæði í næstu forsetakosningum. Það er með ólíkindum hvernig einn maður getur komist upp með að leggja fram slíkt fáranlegt frumvarp og fengið tvo heila þingflokka með sér. Sem betur fer er fólk farið að vakna fyrir þessum einræðisstjórnarháttum og mótmælir, en því miður eru flokksmenn stjórnarflokkana svo hliðhollir einræðisherranum að það þorir ekki að segja neitt. Það að maður velji sér fjölmiðla til að tala við, skammar umboðsmann alþingis og lætur ekki sjá sig við fyrirspurnir á alþingi er með ólíkindum í svokölluðu lýðræðisríki.

Ég verð að játa að ég er farinn að telja niður þessa fjóra mánuði sem Davíð á eftir í Forsætisráðuneytisstól. Ekki veit ég hvort að eitthvað betra tekur við þegar að líflega strengjabrúðan hans Davíð tekur við, en það veltur á því hvort að það takist að losa eitthvað um strengina eða slíta þá alveg. Ég er samt hræddur um að það þurfi að koma Davíð vel í burtu til þess að áhrifa hans verði ekki vart. Spurning hvort að Bush hafi ekki eitthvað hlutverka handa honum, held að hann væri fínn kandítat sem landsstjóri í Írak.