Wednesday, October 29, 2003

Loksins myndir

Loksins er ég búinn að fá ADSL tengingu heim en það tók ekki nema 12 daga. Ég er búinn að setja inn myndir frá Evrópuferðinni sem ég tók í ferðinni og þar sem að Raggi er svo rausnarlega leyfði hann mér að setja myndirnar inn á myndasvæði sitt. Myndirnar sérð þú hér

Friday, October 24, 2003


Skagfirska sveiflan í mynd.

Nú er komið að því að fólk í Borgarnesi skríður út úr kofum sínum til þess að berja ótvíræðan konung Skagafjarðar augum. Þetta er einn af þessum viðburðum sem vekur mannlífið í Borgarnesi og fólk kynnir menningu á einhvern hátt. Geirmundur hefur fyrir löngu sungið sig inn í hjörtu landsmanna með reffilegum sveiflum á skagfirska vísu og angurværum elskulögum. Ódauðlegir og ógleymanlegir slagarar hafa komið frá honum undanfarna áratugi, lög eins og......man ekki alveg þessa stundina eru hverju mannsbarni kunnugt.

Það er engin spurning að ég ætla að skella mér á morgun enda veit ég að það er fullt af fólki sem ætlar að fjölmenna. Ég er til að mynda að fá 6-8 stráka sem voru með mér í Íþróttakennaraskólanum í heimsókn og er alveg inní myndinni að skella sér á ball.

Nokkrar staðreyndir um Geirmund:
* Hann var ellefu ára gamall þegar hann byrjaði að læra á harmonikku og byrjaði að spila á hana á dansleikjum fjórtán ára. Hann afsveinaðist eftir strax eftir fyrsta dansleik.
* Árið 1971 leit fyrst dagsins ljós hljómsveit með hans nafni. Það var áður en hann tók upp listamannanafnið Geirmundur Valtýrsson. Upphaflega heitir Húmi Ismael Viðarsson, skammstafað HIV.
* Geirmundur stjórnar fjármálum Kaupfélags Skagfirðinga, sinnir búfé og skemmtir á böllum vítt og breitt um landið nær hverja helgi. Maður sem sinni málefnum kaupfélagsins getur ekki í neinu rugli sem fylgir skemmtanaiðnaðinum. Geirmundur hefur verið talsmaður betra útlíts og hefur sett á markað lyftingatæki undir sínu nafni.

Geirmundur með Biceps pressuna.

Borgnesingar hafa tekið Geirmund í dyrlingatölu fyrir löngu síðan. Mikil ólæti hafa oft komið upp á böllum þar sem að fólk neitar hreinlega að hætta dansa þegar böllin eru búin. Drukknir Borgnesingar sem fara skemmta sér einu sinni á ári fá mikla útrás þegar þeir koma innan um annað fólk undir áhrifum áfengis. Innbyggð spenna og streita losnar úr læðingi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ófáar flöskurnar hafa flogið framhjá höfði Geirmundar á böllum sem ávallt stendur vaxt sína til enda, ólíkt Robbie Williams sem strunsar heim í ofsakasti.

Dyraverðir hótelsins í Borgarnesi áttu í nógu að snúast síðast þegar
Geirmundur spilaði þar.

Lalli Lögga lúskrar hér á einum aðdáanda sem var orðinn svartur af ölvun.

Monday, October 20, 2003

Queer eye for the Straight Guy

Ég varð vitni af þessum þætti í vikunni og það má segja að hann hafi breytt lífi mínu,,,eða öllu heldur deginum. Þetta er alveg meiriháttar lúmskur þáttur sem fjallar um fimm snaröfuga karlmenn sem ráðast inná heimili gagnkynhneigðra manna og gjörbreyta öllu. Þeir taka einstaklinginn í gegn og breyta honumn útlitslega, taka heimilið hans og snúa því við og svo framleiðis. Eftir að ég horfði á þáttinn varð ég gagntekinn, ekki af karlmönnum þá. ég ákvað að gera byltingu. Ég setti mig í hlutverk tískulöggunar og réðist inní herbergi þar sem ég snéri öllu við, sópaði gólfið og dustaði aðeins rikið af hillunum. Allt er nú gjörbreytt, ég get núna opnað fataskápinn og jafnvel lesið við ljós. Ekki nóg með það heldur tók ég sjálfan mig í gegn líka, rakaði öll bakhár af líkamanum, sleit nefhárin og bar á mig dagkrem. Í dag fór ég svo í klippingu hjá Kötu. Þetta er í fyrsta skipti í tæp 10 ár sem ég fer ekki til Hauks en eins og flestir vita hefur hann látið af störfum eftir tæp 50 ár við rakarastólinn. Kata gerði góða hluti og alveg öruggt ég fer aftur til hennar.

En aftur að tískulöggunni. Næsta skref er að taka herbergið hans Magga í gegn en eins og flestir vita er hann fluttur að heiman og herbergið stendur autt. Hef ég mikið verið að spá í að setja upp hænsnarækt í herberginu hans en ég var að lesa áhugaverða grein í mogganum um hagkvæmni hænsnaræktar. Ekki þyrfti ég að hafa fyrir því að vera þrífa herbergið enda fullt af skít fyrir. Önnur hugmynd er að mála herbergið rautt og setja upp Liverpool minjasafn. Þar væri hagt að koma saman og horfa á Liverpool leiki með léttri Carlsberg stemmningu. Síðasta hugmyndin er hreinlega að kveikja í herberginu enda engum til gagns.


Ekki hef ég enn komist í að setja inn myndirnar mínar frá ferðinni til Austur-Evrópu þar sem að ADSL tengingin er ekki enn komin gagnið. Veit ekki hvað er í gangi en vonandi verður það komið í lag í vikunni.


Monday, October 13, 2003

Myndir

Loksins get ég sýnt einhverjar myndir frá ferðalaginu. Þetta eru myndirnar sem Kobbi tók en þær eru vistaðar inná heimasvæði Ragga og ætla ég að leyfa mér að setja link á þær hér.

Í vikunni munu myndirnar sem ég tók koma á netið.

Einnig hef ég verið beðinn um að setja link inná heimasíðuna hans Hákons frænda og er hægt að komast inn á síðuna hans hér og á vinstra megin á síðunni.

Friday, October 10, 2003

Helgarfrí

Loksins loksins kom að því að helgarfríið skall á. Ég hef haft 5 daga til að skipuleggja þessa helgi og er nokkuð ljóst að framundan er skemmtileg helgi. Stórviðburður helgarinnar er að sjálfsögðu leikur Íslands og Þýskalands. Spái ég 2-0 sigri Þjóðverja enda leika þeir aldrei betur en undir pressu. Búið er að plana að hittast heima hjá Emma kl 15 og væntanlega opnaður fyrsti ölinn um leið og flautan gellur á. Hvernig sem úrslit leiksins verða verður farið í bæjinn um kvöldið þar sem stemmningin verður örugglega fín, ekki síst ef úrslit leiksins verða hagstæð. Ég hefði ekki haft neitt á móti því að vera í Luneburg núna, þar sem ég var fyrir einu ári síðan. Þá hefði einungis tekið 30 mín að skella sér á völlinn í Hamburg. Það hefði líka verið gaman í klefanum hjá liðinu sem ég var að æfa með þar sem að ófá skotin hefðu verið látin flakka fyrir leikin.

Friday, October 03, 2003


Ingvi iðjuleysingi er iðjuleysingi af guðs náð

Dagur í lífi iðjuleysingja

Það tók við áhugaverður tími þegar ég kom heim. Þegar ég var búinn að ná mér niður á jörðina og þynnkan runnin af mér áttaði ég mig á því þar sem ég lá í rúminu mínu heima hjá mömmu og pabba að ég hefði ekkert fyrir stafni. Fyrst greip um sig ofsagleði þar sem ég sá fram á ótakmarkaða CM spilamennsku næstu mánuði og var tölvunni startað. Fyrir þá sem ekki vita er CM knattspyrnuleikur sem kemur í staðinn fyrir allt annað. Maður tekur við knattspyrnuliði sem maður reynir að gera að stórveldi. Þennan mánudagsmorgunn tók ég við liði Duisburg í Þýskalandi. Allt gekk vel og ég náði liðinu strax upp í úrvalsdeild á fyrsta tímabili, áfram hélt velgengin alveg inní meistaradeildina. Síðan fór að síga á ógæfuhliðina þegar væntingar stjórnarinnar fóru að aukast. Í djúpri CM vímu rankaði ég ekki við mér fyrr en á miðvikudaginn þegar stjórn Duisburg sagði mér upp störfum. Þennan miðvikudagsmorgunn stóð ég skyndilega uppi atvinnulaus í CM og í raunveruleikanum. Þetta var vissulega gríðarlegt áfall þar sem mér hefur aldrei verið sagt upp störfum áður. Ég fór niðrá verkalýðsskrifstofu og gerði þeim grein fyrir stöðu mála. Ekki var ég sáttur við framkomu þeirra þar sem að þeir neituðu að blanda sér í deilu mína við stjórnendur Duisburg og bentu mér á að fara leita mér að vinnu.

Næsta skref hjá mér var að leita í blöðum og tímaritum af áhugaverðum atvinnuauglýsingum. Áhugaverðasta auglýsingin var frá Landsbankanum. Fór ég þangað með ferilsrkána mína. Leist þeim vel á hana og ákvaðu þeir að taka mig til reynslu. Átti ég von á litlu skrifborði og tölvu, en viti menn á borðinu var flaska af vodka. Var ég þarna kominn í reynslustarf Djammarans í námsmannaþjónustunni og átti ég að byrja strax og mæta aftur kl. 9:00 daginn eftir. Til að gera langa sögu stutta reyndist ég ekki hæfur í starfið. Það varð strax ljóst þegar ég mætti ekki daginn eftir vegna þynnku. Hvaða Djammari má eiga við þá veikleika að stríða að vera þunnur. Það er eins og að ráða blindann bílstjóra á rútuna.

Fimmtudagurinn er lýsandi dagur í lífi iðjuleysingja. Ég vaknaði 11:30 um morguninn og fékk mér morgunmatinn, eða svona sameiginlegur morgun- og hádegisverður. Þetta er engin tilviljun að iðjuleysingjar geri þetta því þarna má spara heila máltíð, sem er mikilvægt þegar peningainnstreymi er í lágmarki. Kl. 13:00 ákvað ég að lesa moggan, en samt ekki pappírsmoggann heldur net moggan þar sem maður losnar við fyrirhöfnina að flétta. Þegar ég hafði farið þennan venjulega rúnt á netinu, voru tveir kostir í stöðinni, taka smá lúr eftir málsverðinn eða spila CM. CM varð fyrir valinu enda runnin af mér reiðin eftir deilurnar við Duisburg. Spilaði ég til að verða 17:00. Þá fór ég að kíkja á sjónvarpið. á Þessum tíma er ekki neitt nema barnatími og leiðinlegar sápuóperur. Vissulega hefur maður tíma til þess að setja sig inní þær núna en ég vil ekki koma mér inní þetta ef að skyldi vera að maður færi að gera eitthvað, þá er svo vont að missa úr. Á þessari stundu uppgvötvaði ég leyndardóma textavarpsins. Nú loksins skil ég hvað faðir minn hefur uppgvötvað. Vissuð þið að maður getur séð hvernig veður er á öllum heiðum landsins, hversu margir bílar hafa keyrt yfir Laxárdalsheiði, hvernig gengið er í japan, vaxtastig í Kauphöllinni og meira segja eru skipafréttir á síðunni. Þarna er allt. Reyndar var það bara tilviljun að ég rambaði inn á þessa síðu þar sem textavarpstakkinn er afmáður af fjarstýringunni og virkar heldur ekki alltaf eftir ofnotkun. Þarna sat ég fastur næsta klukkutímann og fyrir mér opnaðist nýr heimur. Hvernig væri að opna sjónvarpsstöð sem væri bara textavarp? Maður getur hvort eð er ekki horft á neitt annað á meðan og ég þekki einstaklinga sem eyða 10 klukkutímum fyrir framan sjónvarp á viku, þar af 80% af þeim tíma á textavarpinu. Meira að segja er hægt að sjá hvernig staðan í íshokkýleikjum í Finnlandi er.
Um 18:00 byrjaði Seinfeld, svo fréttir o.s.frv. og þarna sat ég til að verða 22:00, enda margir góðir þættir á fimmtudögum. Þá var tímabært að skella sér á eina æfingu sem lauk kl. 23:00. Eftir erfiðan dag og annasamann dag var ég orðinn örmagna og þráði svefn. Samt var smá orka fyrir CM sem lauk reyndar ekki fyrr en um 2:30 og 10 tíma svefn framundan.

Þá er kannski komið að óvæntu fréttunum. Þessa nótt dreymdi mig skrítinn draum. Ég var að fá starf hjá einhverri ráðningastofu og vinnutíminn var frá 8-5. Fyrir mann sem varla hefur unnið handtak alla sína ævi var þetta ekki góður draumur, öllu heldur martröð. Þennan morgunn hringdi ég upp á Bifröst og bað um að fá að komast í Masternám. Viti menn stjórnendur skólans gáfu mér grænt ljós og nú er í farinn í að vinna upp það sem ég hef misst úr. Já ég er kominn aftur í skóla :)