Tuesday, January 28, 2003

Nýjar myndir

Loksins kom að því að maður fór að hend inná síðuna nýjum myndum. Flestar þessar myndir voru teknar á Akureyri síðustu helgi en eitthvað er frá síðustu dögum mínum í Þýskalandi. Með því að smella hér getur þú séð myndirnar eða þá til vinstri á skjá þínum sem stefndur akureyrarferð.

Þessi ferð var algjör snilld, þrátt fyrir kynlífsleysi og mikla ölvun. Ferðin hófst á föstudaginn þar sem ég og Nonni renndum tveir í bíl beint inní ölgerðina Viking Brugg. Eftir það var haldið í partý hjá Bárði, Bjössa, Agnesi og Agnesi en þá var fjörið rétt að byrja. Eftir stífa drykkju var haldið á Sjallann þar sem Páll Óskar var DJ og ég verð að segja að þetta er eitt það besta "ball" sem ég hef farið á á minni ævi. Þvílík snilld, ekki nóg með að Páll hafi verið frábær heldur var stemmningin í salnum geðveik. Við erum að tala um að sumir slömmuðu fjögur eða fimm lög í röð og ég held að ég hafi aldrei svitnað jafnmikið enda erum við að tala um að fötin voru ógeðsleg daginn eftir.

Laugardagurinn var ekki síðri þar sem hópurinn Bárður og Agnes (par), Bjössi og Agnes (par) Einar og Nonni (ekki par) fóru á skíði um miðjan dag og var rennt sér frameftir degi við frábærar aðstæður í Hlíðarfjalli. Eftir það var farið og verslað í matinn en skömmu seinna byrjað að fá sér aftur í glasið. Þar tók við myndasyrpa dauðans og hafa nokkrar verið ritskoðaðar þar sem líklegt þykir að fólk var ekki með réttu ráði á tilteknum augnablikum. T.a.m. þurfti ljósmyndari einn að eyða nokkrum myndum þar sem einn meðlimur hópsins þrengdi óþægilega að hálsi hans. Um kvöldið var farið á Stuðmenn sem var mjög gaman en náði þó ekki að toppa partýið á undan eða Pál Óskar.

Segja má að þessi ferð hafi boðið upp á allt nema kynlíf og er ég búinn að sjá það að það er alveg hægt að skemmta sér án þess. Ferðin bauð nánast upp á allt, áfengi, skemmtun, giftingu, skíði, myndapósur, kvennfólk (í hófi), slamm, hlátur, rugl og sáralitla þynnku. Það er nokkuð ljóst að ekki er hægt að biðja um mikið meira. Frábærri helgi var lokið og heima beið mín Lúsífer með heitt kakó og með því,,,það var virkilega gott að komast í mjúkan faðm hennar aftur.....

Wednesday, January 22, 2003

Ný stúlka í spilunum!!

Já það var kominn tími til má segja að eitthvað fór að gerast í kvennamálunum. Þannig er nú mál með vexti að ég átti erindi inná elliheimilið á Hvammstanga þegar ég rakst á þessa stelpu. Ég skal nú játa það að ekki var um ást við fystu sýn að ræða a.m.k. ekki af minni hálfu enda trúi ég ekki á slíkt en eftir að hafa gefið mér góðan tíma að spjalla við þessa stúlku þá kolféll ég. Hún er lífsreynd, skemmtileg og getur gert allsskyns kúnstir. Hún heitir því einkennilega nafni Lúsífer og gantast oft með það að hún sé dauðinn og þá hlæ ég sko dátt enda á hún mjög auðvelt með að koma mér að hlægja. Ég held reyndar að þetta Lúsífer nafn sé komið frá Ameríku, þið vitið Lucy. Ég hef reyndar tekið eftir því að fólk hlær almennt mikið í kringum hana. Hún er frekar róleg týpa og líkar það vel að liggja knúsandi yfir videó spólu og narta í nammi og eyrnarsneppla. Hins vegar verð ég að viðurkenna að hún hefur ekkert voðalega góðan smekk fyrir góðum myndum. Hún dýrkar myndir eins og Meeting Joe Black, Death Becomes og The death is not the end. En bara það að fá að liggja í örmum hennar er nóg fyrir mig. Hún á ekki marga vini greyið enda er hún ekki mikið fyrir að vera innan um fólk en ég veit þó að Þórhallur miðill hefur mikið samband við hana en ég veit ekkert hvað þeim fer á milli.

Ég á reyndar eftir að opinbera stúlkuna mína fyrir foreldrum, vinum og vandamönnum og til þess að spara mér tímann set ég bara mynd af henni á vefsíðu mína. Þetta er nú ekki besta myndin sem ég á af henni enda greyið nývöknuð og var það nú til að bæta ástandið að það var pínu morgunógleði í gangi hjá henni Lúsífer minni. Hún vill ekki segja mér enn hvað hún er gömul en hvernig hún hagar og heldur sér myndi ég gíska á 29 ára, kannski 30 ára. Jáá Tarfurinn hugsið þið, búinn að ná sér í eina eldri hummmm,,jújú það er rétt þó að aldursmunurinn sé ekki mikill. Næstu helgi ætlum við að hafa það rólegt og hún ætlar að baka handa mér uppáhalds kökuna sína sem er djöflaterta en síðustu hlegi fór hún með mig í uppáhalds skemmtigarðinn sinn ,,,,ég átti von á að fara í Húsdýragarðinn eða Vetrargarðinn í Smáranum,,nei haldið að hún hafi ekki farið með mig í Kirkjugarðinn í Mosfellsbæ. Já þetta lýsir henni vel litlu, villtu stelpunni minni.


Lúsífer nývöknuð

Saturday, January 18, 2003

Bíllinn minn dó en...

Þetta er svakalegasta lífsreynsla sem ég hef lent í. Þannig var að ég var að keyra niður í íþróttahús nývaknaður á "hvítu þrumunni" og var ég frekar knappur á tíma þar sem að vekjaraklukkan hringdi ekki á réttum tíma. Brunaði ég hálfnakinn inní ískalda þrumuna og startaði og hökkti elskan í gang en vandamálið var að hann hökkti alla leiðina niður í íþróttahús. Þegar ég var að renna niður brekkuna hjá íþróttahúsinu drepur "hvíta þruman" á sér og neitar að fara í gang en það var lán í óláni að ég gat látið hann renna inní stæði fyrir fatlaða. Þegar ég kom inní íþróttasal var klukkan á 15:27 og var ég tveimur mín. og seinn en það var aftur lán í óláni að strákarnir voru líka seinir útaf skólanum. Eftir æfinguna tékkaði ég á bílnum og hélt að hann væri ef til vill bensínlaus eða að túrbó takkinn væri fastur inni. Hvorugt reyndist rétt hjá mér þar sem að bensínmælirinn sýndi að hann væri hálfur og ég fann engan túrbó takka. Hins vegar rauk "hvíta þruman" í gang í fyrsta starti og brunaði með mig heim á met tíma.

Ég er alveg búinn að sjá það að hér erum við að tala um bíl með sál. Það að deyja og rísa upp frá dauðum segir manni ýmislegt um þennan bíl, hann er e.t.v. bíll Guðs. Kannski er hann bara eins og ég þessa daganna, lengi af stað í byrjun dags en í fullu fjöri þegar aðrir eru sofandi. Við félagarnir erum að vinna í því þessa daganna að reyna að snúa við sólarhringnum en það gengur hálf brösulega og sem dæmi um það hef ég látið vekjara klukkuna hringja mikið fyrr en venjulega en gallinn er að ég hef hana of nálægt mér þannig að ég slekk yfirleitt á henni þegar ég hef "snoozað" í c.a. tvo tíma.

Wednesday, January 15, 2003

Að vera á réttum stað á réttum tíma

Ég varð fyrir því láni í gærkvöldi að rekast á tímaritið Vikuna heima hjá mér og þar sem ég var einmitt á leið á klósettið var alveg upplagt að grípa það með. Þar vakti athygli mína stjörnuspá mín fyrir þessa viku en hún er eftirfarandi:

Bogmaður
"Það verður gaman hjá þér þessa vikuna. Byrjaðu gamanið með því að strengja þess heit að hér eftir skulir þí alltaf vera vel til fara og hugsa vel um þinn innri og ytri mann. Þú nýtur þín í góðum félagsskap og ólofaðir Bogmenn gætu kynnst maka sínum ef þeir verða staddir á réttum stað á réttum tíma. Gættu þess að eyða ekki of miklum peningum". heimild Vikan.

Til þess að gera eitthvað í málunum fór ég á útsölur í Reykjavík og verslaði þar föt fyrir um 30.000 krónur,,ekki slæmt það og til þess að eyða ekki of miklum peningum þá borgaði ég það allt á kreditkortið mitt. Þannig er ég búinn að tryggja það að ég sé vel til fara. Fyrir viku síðan hófst undirbúningstímabilið í fótboltanum þannig að maður hefur verið úti að hlaupa og lyfta lóðum síðustu daga og þannig hef ég verið að rækta líkama og sál. Hugsa sem sagt vel um minn innri og ytri mann. Síðan kemur að því sem ég á eftir að gera en það er að vera réttur maður á réttum stað til þess að finna maka minn. Einhvern veginn held ég að þessi stjörnuspá taki ekki tillit til fólks sem býr úti á landi og allra síst í Borgarnesi. Ég fór uppá Bifröst í gær, í íþróttahúsið, á rúntinn, í Shellskálan og Hyrnuna en þar var engin stúlka. Hvar er rétti staðurinn?? Ég hef ákveðið eyða restinni af vikunni í Kaupfélaginu og fylgjast með því hvort ég sjái maka minn ganga þar inn. Ég ætla fá mér stól og sitja fyrir utan hjá Hauki rakara, með kaffibolla í hönd og þiggja góð ráð hjá honum. Ekki skemmir fyrir að stutt er að sækja sterkari vökva ef maður þarf að safna í sig einhverjum kjarki ef maki minn birtist. Ekki það að ég sé orðinn eitthvað örvætingarfullur um að ganga ekki út en svona tækifærum má maður ekki klúðra því að það gæti orðið langt þangað til að ólofaðir Bogmenn eiga aftur tækifæri á að kynnast maka sínum.

Monday, January 06, 2003

Það að vera “grey

Hvað er það að vera “grey”?? Er það að vera gráhærður?? Nei,,varla eru foreldrar að segja börnum sínum að þau séu gráhærð þegar þau eiga eitthvað bágt. Er það fínt orð yfir auli? Njaaa held ekki, það kallar enginn manneskju sem kveinkar sér aula. Er það íslenskt orð yfir gay? Nei andskotinn sjálfur…Er það að verða aumkunarverður?

Ástæða þess að ég hef verið að vellta þessu fyrir mér er að ég átti spjall við ónefnda stúlku á skemmtistað í Reykjavík fyrir stuttu síðan og enduðu samræður okkar á því að hún tók utan um mig, gaf mér nettan koss á kynnina og sagði “ææi þú er svo mikið grey” og svo var hún farin. Eftir þetta stóð ég einn eftir með dökkan Guinnes í hönd og tilvera mín varð ein ráðgáta. Það sem eftir lifði af kvöldinu var ég að velta þessu fyrir mér, sem var svo sem allt í lagi en vandamálið er hins vegar að ég er enn að velta þessu fyrir mér nokkrum dögum seinna.

Nú kann einhver að spyrja af hverju er Einar að velta sér upp úr þessu? Jú ástæðan er einföld, Hvað í andskotanum hafa svokölluð “grey” afrekað í lífinu. Orðið forsetar (reyndar þekki ég grís sem varð forseti)? klifið Everest? Orðið sjónvarpsstjörnur eða kvennabósar?…Nei alls ekki. Ég sé fyrir mér manneskju sem hefur orðið undir í lífinu eða lítinn ósjálfbjarga einstakling eins og lítil börn. Vissulega er ég ekki hár í loftinu þó að ég sé vel á 2. meter en þá er ég ekki ósjálfbjarga eða hvað?….hvar bý ég, hver þrífur þvottinn minn og gefur mér að borða?? MAMMA og PABBI. Ja kannski ég er þá eftir allt saman “grey” en samt vil ég ekki vera það.

Var það virkilega þetta sem stúlkan átti við?? að ég væri lítill ósjálfbjarga einstaklingur,,þýðir það að þegar ég flyt að heiman að mér verði sköffuð félagsleg íbúð og heimilishjálp. Nei Guð hjálpi mér ég get fundið mér mína eigin íbúð en heimilishjálpina þarf ég. Reyndar er ég einn af þeim sem lít á leti sem sjúkdóm rétt eins og þunglyndi. Stundum langar manni ekki að gera eitthvað þó að maður þurfi þess og það tekur á mann andlega að gera suma hluti. Til dæmis það að skúra, vaska upp og að þrífa klósett er eitthvað sem leggst mjög þungt á mig og leiðinlegasta hljóð sem ég veit um kemur frá ryksugu. Hvaða vitleysingur fann upp ryksuguna og í hvaða tilgangi. Þetta tæki er vopn skapað handa konum til þess að valda karlmönnum ónæði þegar þeir horfa á íþróttir. Ég held að konur myndu nú segja eitthvað ef maður tæki upp á því að fara ryksuga stofuna akkúrat þegar Friends væri í sjónvarpinu, en hvaða heilvita karlmanni myndi reyndar detta í hug að fara ryksuga. Svo að ég ljúki þessum samanburði mínum á þunglyndi og leti þá er þetta sambærilegt fyrirbæri rétt eins og þunglyndir verða niðurdregnir þegar dimmir þá verða latir niðurdregnir þegar þeir þurfa að sinna húsverkum. Síðan koma reyndar góðar stundir fyrir letingja því að þeim líður aldrei betur en þegar allir eru að vinna í kringum sig og þeir eru ekki að gera neitt.
Já ætli að letingjar séu ekki bara líka “grey” eftir allt saman þar sem engin skilur hvað þeir þurfa að ganga í gegnum.

Niðurstaða mín er mjög óljós og ég veit ekki alveg hvort ég flokkist undir þetta dæmigerða “grey”. Allaveganna er það ekki ósk mín að ímynd mín í augum kvenna sé “grey”. Hver vill vera með með “greyi”? Hvað getur “grey” gert fyrir konur? Ég efast um að nokkuð “grey” í heiminum hafi náð að fullnægja þörfum og óskum einhvers kvennmanns. Ef að kona vill ná sér í “grey” fær hún sér hund eða kött, ekki karlmann.
Nei,,ég er og ætla mér ekki að vera “Grey”!!!

Mættur á ný

Þá er maður búinn að jafna sig eftir áramótin en ég get fullyrt það að elsku þynnkan mín hefur aldrei verið meiri en eftir þetta áramótakvöld og var ég farinn að sakna hennar all verulega. Ekki veit ég hver ástæðan er fyrir því að en hugsanlega má rekja hana til verulegrar áfengisdrykkju sem átti sér stað þetta kvöld. Í dag er ég hins vegar hreinn og hef ekki fundið fyrir þynnku síðan í gær þannig að nú má fara plana næsta djamm. Þessi áramót voru hins vegar mjög hefðbundinn þar sem ég fór á ball á hótel Borgarnesi, hins vegar man ég voða litið hvað gerðist á ballinu og alls ekki neitt eftir það, sem er hreint út sagt frábær árangur.

Um þessi áramót strengdi ég mjög einfalt áramótaheit en það er að sleppa því að drekka síðasta glasið þegar ég er að djamma, en vandamálið er reyndar það að ég veit aldrei hvenær ég er búinn með það næst síðasta.

Framundan er lítið að gera hjá mér þar sem að skólinn byrjar ekki fyrr en 20 jan. en reyndar hef ég tekið við þjálfun í 4. og 5. flokki Skallagríms sem ég verð með út veturinn. Næst á stefnuskránni hjá mér er að fara rétta við blessaða sólarhringinn þ.e.a.s. að fara sofa á nóttinni og vaka á daginn en það er hægara sagt en gert.