Sunday, November 28, 2004

Eitt á eftir ólifað

Jæja þá er farið á síga á seinni hlutan hjá manni en í gær varð kallinn 29 ára. Það þýðir að eftir eitt ár þá verður maður kominn á nýjan áratug sem ég get engan veginn hlakkað til. Hef ég sett það afmælisheit að lifa hátt og hratt á þessu síðasta ári sem ég á eftir ólifað á þessum áratug. Ef ég á að segja til hvernig næsta ár verður get ég með engu móti sagt til um það. Alla vega er ljóst að maður verður í Borgarnesi fram að áramótum en hvað tekur við eftir það er ómögulegt að segja. Mestar líkur eru á að ég fari til Eistalands eftir áramótin en ég á von á endanlegri staðfestingu og upplýsingum í næstu viku. Alla vega má það ekki dragast mikið lengur en það þar sem að það er þá bara rétt rúmur mánuður þangað til ég myndi fara. Þetta er skólinn www.ebs.ee . Ef svo myndi fara að ég færi ekki reikna ég með að flytjast til Reykjavíkur þar sem ég myndi vinna að lokaritgerðinni fram á næsta vor. Ekki veit ég hvort ég myndi leigja eða kaupa íbúð en það kemur væntanlega bara í ljós.

Ef ég spái svo fyrir um næsta sumar reikna gæti vel farið svo að maður eyddi því úti í Eistlandi eða einfaldlega í einhverri vinnu í Reykjavík. Reyndar er eiginlega ómögulegt að spá fyrir um það en í sumar var ég eiginlega búinn að ákveða að ég yrði að skella mér á eina Roskilde tónleika. Ekki ætla ég að útiloka ferð um verslunarmannahelgina til Eyja, þar sem að hún klikkaði illilega hjá mér síðasta sumar. Það verður þá síðasta ferðin til Eyja,,,,humm.
Ekki veit ég hvort að maður spili einhvern fótbolta næsta sumar en þó get ég alveg útilokað að þurfa að fara í brúðkaup innan míns vinahóps :)

Annars þýðir ekkkert að vera með eitthvað volæði, maður tekur bara því sem að höndum ber og framundan held ég að sé mjög spennandi og viðburðarríkt ár, þar sem ýmislegt á eftir að koma á óvart :)



Sunday, November 21, 2004

The Rock

Vildi bara benda á að það er komin ný heimasíða á Internetið, eða the internets eins og Bush orðaði það. Hún heitir Nói en nafngift hennar má rekja til Evrópuferðar sem farin var í fyrra af. Það er enginn annar en Emil "Nói" snillingur sem ætlar að halda henni uppi í þeim tilgangi að spara símtöl og slúðursögur sem um hann ganga. Þarna fáið þið allar sögurnar beint í æð án þess að utanaðkomandi áreiti hafi áhrif á gang mála.


Thursday, November 18, 2004

18. nóvember

Til hamingju með afmælið bróðir!!

Það fór nú eins og ég hélt að sá yngri er alveg að ná mér að árum. Nú munar ekki nema fjórum árum en ég man þegar ég var 10 ára þá var ég helmingi eldri en hann. Versta er þó að kappinn skuli halda sig út í Japan sem þýðir að það verður engin veisla um helgina. Spurning um að maður haldi bara upp á þetta fyrir hann. Reyndar er kosturinn sá að maður er alveg laus við að þurfa gefa honum afmælisgjöf fyrir vikið.

Verð samt að segja að ég var ekki alveg að sætta mig þessi ummæli sem að Hákon Marteinn sonur hans lét út úr sér í minn garð. Voru þau það ósmekkleg að ég hreinlega treysti mér ekki að hafa þau hér eftir á opinberum vettvangi. Ekki þykir mér ólíklegt að faðirinn eigi þarna einhvern hlut í máli og skýli sér á bak við saklausan son sinn. Er ég að gera upp hug minn hvort ég muni leita réttar míns og hef ég rætt við nokkra lögfróða menn.

Nú eru einungis níu dagar þangað til að mitt afmæli kemur og vill svo skemmtilega til að það ber upp á laugardag. Nói (Emmi) hefur boðið mér Örkina sína í Rugluhólum til afnota og er það mjög vænlegur kostur þar sem að gisting og þrif eru innifalin endurgjaldlaust. Ekkert er þó ákveðið og getur alveg verið að maður geri hreinlega ekki neitt enda nóg að gera í skólanum sem maður hefur ýtt á undan sér.




Wednesday, November 17, 2004

17. nóvember

Til hamingju með afmælið systir!!

Hvað ertu eiginlega orðinn gömul?,,,,,,humm a.m.k eldri en eldgosið í Vestmannaeyjum og það er nú orðið helvíti gamalt. Meira að segja farið að kveikna líf í köldu hrauninu. Það verður gaman fyrir þig að takast á við þetta ár enda viðburðarríkt ár framundan í þínu lífi.

Annars er maður bara að skríða saman eftir Brussel ferðina sem var mjög vel heppnuð í alla staði. Fyrirlestrar, kokteilboð, matarboð, skoðannaferðir o.fl gerðu þessa ferð ógleymanlega.
Hvað Brussel varðar þá kom sú borg mér mjög á óvart. Í raun hefur hún engin séreinkenni nema ef til vill þau að hún ber einkenni helstu miðborga V-Evrópu. Í raun fer það algjörlega eftir því í hvaða hverfi maður er þá getur maður upplifað að maður sé í Englandi, Þýskalandi, Frakklandi og jafnvel Spáni.

Það er reyndar ljóst að ferðin tók sinn toll, reyndar meiri toll en ég komst með inní landið. Fór í fótbolta á mánudaginn og daginn eftir var ég að sálast úr harðsperrum á milli allra rifbeinanna. Orsakast það af óvenju hröðum andardrætti. Hef ég átt erfitt með það rétta úr mér að þessum sökum og sú kenning að hnerri valdi 10% fullnægingu á engan vegin við í þessu tilfelli. Til að bæta líkamlega vanlíðan skellti ég mér í Body Pump sem hefur orsakað enn meiri vanlíðan í dag þ.e. harðsperrur í öllum skrokknum.


Thursday, November 04, 2004

Stórfréttir

Fékk skemmtilegt símtal hingað til Brussel en þar var mér tilkynnt að ég hef fengið inngöngu í Estonian Business School eftir áramótin. Þetta þýðir að nú er karlinn að flytja búferlum til Eistlands um áramótin. Hef ég ákveðið að kaupa one way ticket og sjá til hvernig mér líkar í framhaldinu, ef mér líkar vel þá er alveg inní myndinni að vinna þarna í einhvern ákveðinn tíma,,nú ef mér líkar ekki vel þá er alltaf sá möguleiki að koma heim.

Annars hefur ferðin hingað til Brussel verið algjör snilld. Við erum búin að sitja fyrirlestra í gær og fyrradag hjá íslenska sendiráðinu þar sem að fulltrúar íslensku ráðuneytana hafa verið að kynna starfsemi sína. Í dag vorum við svo hjá fulltrúum EFTA og hef ég komist að því að Íslenskir embættismenn eru lítið annað en lobbýistar á meðan Íslands er utan ESB. Annars er maður búinn að lifa mjög diplómatísku lífi hérna í Brussel enda vel við hæfi. Höfum setið fundi og mætt í ýmis opinber boð þar sem að sendiráðsfulltrúar reyna að smjaðra fyrir erlendum erindrekum.

Fórum á kosningavöku amerískafélagsins hérna í Brussel. Þar voru komin saman einhver hundruð manns. Reyndar nennti ég ekki að bíða eftir fyrstu tölum sem og var farinn að sofa um kl. 3. Úrslitin eru sjálfsagt öllum kunn og undirstrika það að Bandaríkin eru heimskasta og hættulegasta þjóð í heimi. Reyndar tel ég að þetta muni ýta undir það að Hiilary Clinton verður forseti eftir fjögur ár og held ég að þetta hafi verið með ráðum gert hjá Demókrötum að stilla upp veikum forseta gegn Bush. Ef Kerry hefði unnið hefði það legið beint við að Kerry hefði haldið áfram eftir fjögur ár en þess í stað kemur fram annar kandídat á þeim tíma sem ég tel að verði Hillary.

Annars er maður núna bara að fara út að borða og eitthvað aðeins í glas. Nokkuð þægilegt líf maður sækir fyrirlestra til fjögur eða fimm, síðan einhver kokteilboð og svo út að borða á eftir. Síðan er kíkt á pöbbana á eftir. Lenti í skemmtilegu djammi á mánudagskvöldið þar sem ég spjallaði við bareiganda frá Albaníu sem lýsti fyrir mér lífinu í þessu harðstjórna kommúnista ríki. Komst að því að Ísland á ýmislegt sameiginlegt með Albaníu.

Á svo að hengja Þórolf Árnason og fyrir verk kolkrabbans? Sá í dag að menn eru farnir að velta fyrir sér stöðu hans. Verð samt að segja að forstjóra olíufélaganna á þessum tíma á að draga til ábyrgðar og þeir eigi að svara til saka. Um er að ræða gífurlegt fjársvikamál þar sem að almenningur var snuðaður um 80 milljarða króna. Ef sambærilegt atvik hefði átt sér stað í Frakklandi þá hefði almenningur hreinlega hlaupið til og kveikt í bensínstöðvum.